Arion banki hagnaðist um 14,9 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi ársins 2015, eða um 165 milljónir króna á dag að meðaltali. Hagnaður bankans á sama tíma í fyrra var 2,9 milljarðar króna. Hann fimmfaldaðist því á milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum,
Hagnaðurinn er að langmestu leyti tilkominn vegna einskiptisatburða á borð við skráningu bankans á hlutum í fasteignafélaginu Reitum og alþjóðalega drykkjaframleiðandanum Refresco Gerber. Hagnaður af reglulegri starfsemi á tímabilinu nam fjórum milljörðum króna samanborið við 1,7 milljarða á sama tímabili 2014 og heildareignir námu 1.004,3 milljörðum króna samanborið við 933,7 milljarða króna í árslok 2014. Eiginfjárhlutfall Arion banka í lok mars var 23,9 prósent.
Mikill hagnaður í fyrra
Arion banki átti metár í hagnaði á árinu 2014 og hagnaðist þá um 28,6 milljarða króna. Hluti þess hagnaðar er vegna uppreiknaðs virðis hlutabréfa í HB Granda. Þá hækkuðu þóknanatekjur, vaxtatekjur, gengishagnaður og rekstratekjur vegna sölu eigna, leigutekna, virðisbreytinga á eignum, iðgjalda af líftryggingastarfsemi og söluhagnaðar af atvinnuhúsnæði á því ári. Alls hagnaðist Arion banki um tæpa 16 milljarða króna meira í árinu 2014 en á árinu 2013. Það er hagnaðaraukning upp á 125 prósent.
Ljóst er að allt stefnir í enn betra ár hjá Arion banka nú miðað við hagnaðinn á fyrstu þremur árum ársins. Samanlagður hagnaður Arion banka frá því að hann var búinn til á rústum Kaupþings er um 119 milljarðar króna.
Skráning Refresco arðsöm
Kjarninn greindi frá því í mars að Refresco hefði verið skráð á markað í Hollandi. Það hefur reynst afar arðbær ákvörðun hjá eigendum félagsins, en þeirra stærstur eru Stoðir, sem áður hétu FL Group.
Þrotabú Glitnis er langstærsti eigandi Stoða, með rúmlega 30 prósent hlut. Arion banki á síðan 16 prósent. Á meðal annarra eigenda eru Landsbankinn, og sjóðir í stýringu erlendu stórbankanna J.P. Morgan og Credit Suisse. Jón Sigurðsson, fyrrum forstjóri FL Group, Þorsteinn M. Jónsson, fyrrum stjórnarformaður Glitnis og áður stór hluthafi í FL Group, og Hilmar Þór Kristinsson, fyrrum framkvæmdastjóri Kaupþings, sitja allir í átta manna stjórn Refresco-Gerber fyrir hönd íslenskra eigenda.
Reitir voru skráðir á aðalmarkað í síðasta mánuði í kjölfar þess að Arion banki seldi 13,25 prósent hlut í félaginu í gegnum útboð sem fyrirtækjaráðgjöf fjárfestingarbankasviðs Arion banka hafði umsjón með. Meðlagengi seldra hluta í því útboði var tæplega 63,9 krónur á hlut en eftirspurn eftir hlutafénu var fjörföld. Gengið bréfa í Reitum við lok viðskipta í dag var 62,4 krónur á hlut.