Hagnaður Arion banka á árinu 2014 nam 28,7 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 12,7 milljarða króna á árinu 2013. Arðsemi eigin fjár var 18,6 prósent samanborið við 9,2 prósent árið 2013. Heildareignir námu 933,7 milljörðum króna samanborið við 938,9 milljarða króna í árslok 2013, að því er segir í fréttatilkynningu frá Arion banka.
Íslandsbanki tilkynnti einnig um uppgjör sitt í dag en hann hagnaðist um 22,8 milljarða króna, og nemur eiginfjárhlutfall hans tæplega 30 prósentum.
Eiginfjárhlutfall bankans í árslok 2014 var 26,3 prósent en var 23,6 prósent í árslok 2013.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri, segir í fréttatilkynningu að regluleg starfsemi bankans hafi gengið vel á árinu, og umfram væntingar og áætlanir. „Afkoma var góð á árinu 2014. Regluleg starfsemi bankans gekk vel og afkoma var umfram væntingar á öllum helstu tekjusviðum. Óreglulegir liðir höfðu einnig jákvæð áhrif á afkomuna og þá fyrst og fremst sala á hlut í HB Granda og vel heppnuð skráning félagsins á aðalmarkað kauphallar, en einnig höfðu jákvæðar virðisbreytingar áhrif,“ segir Höskuldur.
Hann segir vaxtamun hjá bankanum hafa lækkað um 0,6 prósentustig á tveimur árum. „Við höfum gert ráð fyrir því á undanförnum árum að vaxtamunur bankans myndi lækka, sem hann hefur gert um 0,6 prósentustig, úr 3,4% í 2,8%, á tveggja ára tímabili.“
Arion banki jók á árinu hlut sinn í Valitor í um 99% með kaupum á 38% hlut af Landsbankanum. Við höfum mikla trú á Valitor sem hefur verið leiðandi í uppbyggingu greiðslukortakerfisins hér á landi og skipar mikilvægan sess í starfsemi, stefnu og framtíðarsýn Arion banka. Valitor hefur undanfarið haslað sér völl á erlendum vettvangi og eru spennandi tímar framundan hjá félaginu.
Hér að neðan má sjá helstu atriði ársreiknings fyrir árið 2014, samanborið við árið 2013.
Helstu atriði ársreikningsins
- Hagnaður eftir skatta nam 28,6 mö.kr. samanborið við 12,7 ma.kr. árið 2013.
- Eiginfjárhlutfall nam 26,3% í lok árs samanborið við 23,6% í árslok 2013.
- Arðsemi eigin fjár var 18,6% samanborið við 9,2% árið 2013.
- Hreinar vaxtatekjur námu 24,2 mö.kr. samanborið við 23,8 ma.kr. árið 2013.
- Hreinar þóknanatekjur námu 13,3 mö.kr. samanborið við 11,2 ma.kr. árið 2013.
- Rekstrartekjur hækka á milli ára og námu 54,0 mö.kr. samanborið við 44,3 ma.kr. árið 2013.
- Hrein virðisbreyting er jákvæð á árinu og nemur 2,1 ma.kr., samanborið við 0,7 ma.kr. gjaldfærslu árið 2013.
- Tekju- og bankaskattar námu samtals 7,3 mö.kr. samanborið við 6,0 ma.kr. árið 2013.
- Hagnaður af aflagðri starfsemi nam 6,8 mö.kr. samanborið við 0,4 ma.kr. árið 2013.
- Kostnaðarhlutfall var 50,1% en var 57,3% árið 2013.
- Eigið fé bankans var 162,2 ma.kr. en nam 144,9 mö.kr. í lok árs 2013. Bankinn greiddi arð til hluthafa sinna upp á 7,8 ma.kr. á árinu 2014.