Arion banki segir að hugleiðingar Róberts Guðfinnssonar, athafnamanns á Siglufirði, um sameiningu AFLs sparisjóðs og bankans, og ummæli hans um ýmsa þá einstaklinga sem að málefnum AFLs hafa komið, ekki vera svaraverðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum vegna pistils Róberts sem birtist á vefnum Siglo.is fyrr í dag.
Í pistlinum sagði Róbert að ráðandi öfl í Arion banka hefðu lagst svo lágt að innlima AFL sparisjóð með ofbeldi til að hylma yfir klúður yfirmanna bankans í uppstokkun á fjárhag hans. Þessi litla lánastofnun sem varð til við sameiningu Sparisjóðs Skagafjarðar og elstu peningastofnunar landsins, Sparisjóðs Siglufjarðar, muni nú renna inn í sjóði erlendra vogunarsjóða undir nafni Arion banka.
Þar hellir hann sér auk þess yfir Arion banka, bæði almennt og vegna innlimunar AFLs sparisjóðs. Róbert segir meðal annars að í stjórn Arion banka hafi settir útbrunnir einstaklingar með takmarkaða getu til umbreytingu sem þjóna vogunarsjóðum og að í bankastjórastólnum sitji síbrotamaður (Höskuldur Ólafsson) sem „á feril í fyrirtækjum sem ítrekað hafa verið í rannsókn vegna brota á samkeppnislögum“. Yfir fyrirtækjasviðinu sé „Quislingur“ (Halldór Bjarkar Lúðvíksson) sem hafi keypt sér friðhelgi hjá Sérstökum saksóknara gegn því að vitna gegn fyrrum samstarfsmönnum sínum.
Í tilkynningu Arion banka, sem greint er frá á mbl.is, vegna skrifa Róberts segir ennfremur:
„Hvað varðar alvarlega stöðu AFLs þá vísa ég til niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins. Staða sparisjóðsins, sem hefur þjónað íbúum Siglufjarðar og Sauðárkróks um langa hríð, hefur því miður til margra ára verið mjög slæm. Sjóðurinn hefur þurft stuðning og fyrirgreiðslu frá Arion banka sem bankinn hefur veitt, þrátt fyrir að hafa ekki stjórnunarlega aðkomu að sjóðnum fyrr en nýverið.
Að vel athuguðu máli margra aðila, þar með talið Fjármálaeftirlitsins, Samkeppniseftirlitsins, KPMG og annarra óháðra skoðunarmanna, er ljóst að staða AFLs í dag er það alvarleg að ekki er hægt að halda áfram með það söluferli sem farið var í gang. Niðurstaða dómsmála vegna ágreinings um lögmæti erlendra lána myndi ekki breyta þessari staðreynd. Því er ekkert annað í stöðunni til að afstýra enn frekara tjóni en að sameina AFL sparisjóð Arion banka, en AFL hefur verið hluti af samstæðureikningi Arion banka um árabil.
Við hjá Arion banka munum leggja okkur fram um að veita öfluga þjónustu í Fjallabyggð bæði á Siglufirði og Ólafsfirði sem og i Skagafirði.“