Arion banki sagði í dag upp 20 starfsmönnum og tilkynnti að afgreiðslu bankans á Hólmavík verði lokað . Áður hafði starfsfólki bankans verið fækkað um 120 frá lokum árs 2009 auk þess sem Arion banki hafði þegar lokað 16 útibúum á því tímabili. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.
Þar segir að starfsfólki hafi verið fækkað um 120 frá árslokum 2009, og að fækkunin hafi að mestu náðst fram í gegnum starfsmannaveltu með þeim hætti að ekki var ráðið aftur í störf sem losna. Bankinn hefur hins vegar líka ráðist í stórfelldar uppsagnir á þessu tímabili. Í september 2011 var til að mynda 57 starfsmönnum sagt upp störfum.
Í tilkynningunni segir enn fremur:
„Í dag var ráðist í frekari hagræðingaraðgerðir innan Arion banka þegar 18 starfsmönnum var sagt upp störfum. Það er erfitt skref að þurfa að grípa til uppsagna en nauðsynlegt til að auka skilvirkni og hagkvæmni í grunnrekstri bankans. Að auki verður afgreiðslu Arion banka á Hólmavík lokað en við það munu tveir starfsmenn til viðbótar láta af störfum.
Eftir lokun afgreiðslunnar á Hólmavík starfrækir Arion banki 23 útibú og afgreiðslur um land allt. Viðskiptavinir afgreiðslunnar á Hólmavík geta sótt þjónustu í útibú bankans í Borgarnesi eða hvert það útibú bankans sem þeir kjósa, en um helmingur viðskiptavina afgreiðslunnar á Hólmavík er með búsetu á höfuðborgarsvæðinu.“