Uppfylling kröfuhafa föllnu bankanna á stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda mun leiða til þess að greiðslujafnaðarvandi Íslands leysist, afhending slitabúa þeirra á hluta eigna sinna mun að öllum líkindum lækka skuldir ríkissjóðs um 500 milljarða króna, afhending eigna sem skila sjóðstreymi í erlendri mynt mun leiða til þess að óskuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabankans stækkar um 75 til 80 milljarða króna, íslenskir bankar munu tryggja sér langtíma fjármögnun í erlendum gjaldeyri og höft munu smátt og smátt líða undir lok. Þetta er niðurstaða greiningardeildar Arion banka.
Hún telur hins vegar að stöðugleikaframlag slitabúanna og losun hafta muni líka kalla á ný viðfangsefni í stjórnun efnahagsmála sem bregðast verði við.
Ekki eyða í útgjöld það eykur þenslu
Í greiningunni er lögð áhersla á að ríkið megi ekki auka þenslu með því að veita ekki þeim fjármunum sem falla því í skaut í aukningu ríkisútgjalda. Greiningardeildin rifjar upp að í greinargerð frumvarps um stöðuleikaskatt segi að að verði hann greiddur muni það afla ríkissjóði tekna á bilinu 682 milljarða króna til 850 milljarða króna. "Mat greiningardeildar er að virði beinna framlaga slitabúanna sé nokkuð lægra, eða um 500 ma.kr., en óvissubilið er umtalsvert þar sem endanlegt verðmæti ýmissa eigna liggur ekki fyrir. Hvort sem um skatttekjur eða stöðugleikaframlag verður að ræða mun svigrúm skapast til að lækka skuldir ríkissjóðs umtalsvert."
Kjarninn hefur áður metið mögulegt virði beinna framlaga slitabúanna á 300 til 400 milljarða króna.
Í greiningunni er bent á að ef nauðasamningar slitabúanna verða ekki staðfestir muni ekki ekki reyna á lög um stöðugleikaskatt og verður ríkissjóður þá ekki lagalega skuldbundinn til að ráðstafa fjármununum til niðurgreiðslu skulda. "Það mun því velta á frumvarpi til fjárlaga hvers árs hvernig fjármununum verður ráðstafað og er því rétt að ítreka mikilvægi þess að þeim verði beint til niðurgreiðslu skulda, hvort sem nauðasamningar verða staðfestir eða stöðugleikaskattur greiddur. Því er umhugsunarvert hvort skynsamlegt væri að mæla sérstaklega fyrir um í lögum ráðstöfun umrædds framlags. Fyrir ríkissjóð mun ávinningurinn þá fyrst og fremst felast í lækkun vaxtakostnaðar um tugi milljarða. Fyrir efnahagslífið í heild mun bætt skuldastaða ríkissjóðs koma fram í betra lánshæfismati, lægri vöxtum og vonandi stöðugri gjaldmiðli."
Skuldir mynda eignaverð í íslenskum krónum
Í greiningunni er bent á að það er ekki einfalt mál að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Þær mynda grunninn að ávöxtunarkröfu og þar með eignaverð í íslenskum krónum. "Ríkissjóður og Seðlabanki standa frammi fyrir mjög umfangsmiklu fjárstýringarverkefni sem, ef illa tekst til, getur ýtt undir verðbólgu, eignabólu og óstöðugleika. Mikilvægt er að staðið verði að niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs með þeim hætti að það raski sem minnst peningamagni í umferð og lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja.
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að skuldabréf sem gefið var út til handa Seðlabanka Íslands verði greitt niður. Einnig er gert ráð fyrir að öðrum tekjum ríkissjóðs verði ráðstafað á sérstakan innstæðureikning ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands, sem er skynsamleg nálgun að okkar mati. Niðurgreiðsla á öðrum skuldum, sem eru í eigu annarra en Seðlabanka Íslands, getur aukið virkt peningamagn í umferð og verður því að grípa til mótvægisaðgerða hverju sinni og tryggja að dregið sé úr samsvarandi peningamagni í umferð."
Nauðsynleg stærð forða mun ráða miklu um þróun krónu
Þá er bent á að flæði fjármagns inn í landið gæti aukist umtalsvert við losun hafta, sérstaklega ef vaxtamunur við útlönd verður jafn mikill og hann er í dag og ef lánshæfismat ríkissjóðs batnar. Greiningardeildin segir að Seðlabankinn þurfi að ákveða hvernig hann ætli að bregðast við slíku innstreymi og hvort hindra megi það með einhverjum hætti. "Viðskiptaafgangur síðustu ára hefur verið nýttur til þess að byggja upp gjaldeyrisforða með þeim árangri að óskuldsettur gjaldeyrisforði telur nú í kringum 100 ma.kr. Myndarlegur óskuldsettur gjaldeyrisforði getur aukið tiltrú á smáum gjaldmiðli og dempað gengissveiflur. Hversu stóran gjaldeyrisforða Seðlabankinn kýs að eiga í sínum fórum er hins vegar ósvarað og einnig hve hratt á að byggja upp þann forða. Svar Seðlabankans við þeim spurningum munu ráða miklu um þróun íslensku krónunnar á næstu misserum."