Arion banki hafði ekki vitneskju um alla þá aðila sem stóðu bak við kaupin á fimm prósent hlut bankans í Símanum í ágúst á genginu 2,5 krónur á hlut. Arion banka var kunnugt um Sigurbjörn Þorkelsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Barclays, stæði að kaupum á hlutum fyrir um 540 milljónir króna. Síðar hefur hins vegar komið fram að Sigurbjörn keypti hlutinn með viðskiptafélögum sínum Árna Haukssyni og Hallbirni Karlssyni en hver þeirra keypti hlutafé fyrir um 180 milljónir króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Hópurinn sem fékk að kaupa í ágúst, og samanstóð af stjórnendum Símans og völdum hópi fjárfesta, fékk að kaupa bréf á gengi sem er 36 prósent lægra en gengið í tilboðsbók B í útboði félagsins. Hluturinn hefur því hækkað umtalsvert í virði á nokkrum vikum. Söluhömlur eru á hlut hópsins sem þýða að hann má ekki selja bréfin fyrr en í janúar 2017. Eigendur bréfanna geta því ekki leyst út hagnað sinn strax.
Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka, skrifaði aðsenda grein í Morgunblaðið á þriðjudag þar sem hann m.a. varði söluna til hópsins. Þar sagði hann:„Það var mat Arion banka að það myndi styrkja hlutafjárútboðið og Símann til framtíðar að fá að félaginu hóp alþjóðlegra fjárfesta með reynslu af fjárfestingum og fjarskiptum í fjölda landa. Þessi hópur er því ekki einungis að koma með fjármagn í félagið heldur einnig dýrmæta þekkingu og reynslu á sviði fjarskipta sem mun vonandi nýtast félaginu og hluthöfum þess til framtíðar.“ Samkvæmt frétt blaðsins í morgun vissi Arion banki hinsvegar ekki hverjir allir í hópnum voru.
Órói í stjórn Símans
Í Morgunblaðinu í dag segir einnig að stjórn Símans hafi heldur ekki verið kunnugt um aðkomu Árna og Hallbjörns. Röksemd Arion banka fyrir að selja fimm prosent til hóps sem Orri Hauksson, forstjóri Símans, fór fyrir í ágúst hafi verið sú að í honum væru stjórnendur hjá fyrirtækinu og fjárfestar með alþjóðareynslu og sérþekkingu á fjarskiptamarkaði. Auk þess segir Morgunblaðið að það hafi heimildir fyrir því að kaupverðið hafi verið fastsett í upphafi árs en að stjórn Símans hafi fengið þær upplýsingar að það hefði verið ákvarðað í lok sumars.
Þegar forsvarsmenn Arion banka kynntu stjórn Símans hugmyndir að útboði og skráningu fyrirtækisins á markað var einnig lögð fram tillaga um að starfsfólk þess myndi fá kauprétti á genginu 2,5 krónur á hlut, eða sama gengi og stjórnendahópurinn og meðfjárfestar þeirra höfðu fengið að kaupa. Í kynningunni hafi verið rætt um að hafa gengið á kaupréttunum sem næst útboðsgengi eða örlítið lægra. Morgunblaðið hefur það eftir ónafngreingum heimildarmönnum að það hafi komið stjórnarmönnum í Símanum í opna skjöldu þegar útboðsgengið var mun hærra. Meðalverð keyptra hluta í því reyndir 3,33 krónur á hlut, eða 33 prósent hærra en stjórn Símans hafði samþykkt að selja starfsmönnum fyrirtækisins á.