Arion banki seldi fasteignina Ármúla 9, betur þekkta sem Hótel Ísland, með 500 milljóna króna hagnaði átta vikum eftir að bankinn hafði tekið yfir fasteignina í skuldaskilum undir lok árs 2013. Bændasamtök Íslands, sem voru eigendur hótelsins, komust að því hvert söluverðið hafði verið og gerði í kjölfarið alvarlegar athugasemdir við fyrri samning um skuldaskil. Það leiddi til þess að Arion banki bætti seljandanum að nokkru leyti upp mismunin á kaup- og söluverði fasteignarinnar. Þetta kemur fram í ViðskiptaMogganum í dag.
Þar er rætt við Harald Benediktsson, fyrrum formann Bændasamtakanna og núverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins. Hann segir að á meðan að hann hafi verið formaður Bændasamtakanna hafi forsvarsmenn Hótels Sögu og Arion banka ekki náð saman um sölu á félaginu sem átti Hótel Ísland þar sem verðhugmyndir bankans hafi verið of lágar. „Hótel Saga lenti eins og mörg önnur fyrirtæki í vandræðum með skuldir sínar í hruninu og við leituðum í samstarfi við bankann að lausn á þeim vanda. Bankinn vildi fá eignina á verði sem var alltof lágt. Þegar ég hvarf til annarra starfa var hótelið selt á svipuðu verði en örfáum dögum síðar var það selt þriðja aðila á verði sem var meira en hálfum milljarði hærra".
Fjárhagsleg endurskipulagning árið 2013
Kjarninn greindi frá því í fyrra að Hótel Saga, sem Bændasamtökin eiga einnig, hafi gengið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu árið 2013. í því ferli lögðu Bændasamtökin Hótel Sögu til 250 milljónir króna í nýtt eigið fé gegn því að fá skuldir Hótel Sögu niðurfelldar. Þetta var á meðal samkomulagsatriða í þríhliða samkomulagi Bændasamtakanna, Arion banka og Hótel Sögu ehf. um fjárhagslega endurskipulagningu hótelsins.
Í skýringum í ársreikningi Bændasamtakanna fyrir árið 2013 kom fram að Arion banki hafi leyst til sín allt hlutafé í Hótel Íslandi, sem var einnig í eigu Bændasamtakanna, í tengslum við uppgjörið. Það hótel var svo selt til nýrra eigenda með um hálfs milljarða hagnaði átta vikum síðar.