Arnar Þór Jónsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, Lárentsínus Kristjánsson hæstaréttarlögmaður og Pétur Dam Leifsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, voru metnir hæfastir til að gegna embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Er það niðurstaða dómnefndar sem fór yfir hæfi umsækjenda að mennirnir þrír séu hæfastir til að hljóta skipun í embættið og að ekki séu efni til að gera upp á milli hæfni þeirra.
Greint er frá niðurstöðu dómnefndar á vef innanríkisráðuneytisins. Þar má lesa umsögn hennar í heild.
Embættið var auglýst þann 12. júní síðastliðinn og alls bárust sjö umsóknir. Auk þeirra þriggja sem eru metnir hæfastir þá sóttu um embættið þau Berglind Bára Sigurjónsdóttir, skrifstofustjóri umboðsmanns Alþingis, Hafsteinn Dan Kristjánsson, aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis, Stefanía G. Sæmundsdóttir, settur saksóknari, og Stefán Erlendsson, héraðsdómslögmaður og lögfræðingur hjá Vegagerðinni.
Innanríkisráðuneytið fór þess á leit við dómnefnd að hún léti í té umsögn um hæfi umsækjenda, samkvæmt lögum um dómstóla, og skilaði hún umsögn sinni þann 1. september síðastliðinn.