Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að enginn verði tilnefndur í stjórn Íbúðalánasjóðs fyrr en búið sé að bregðast við athugasemdum Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, sem hætti í stjórn sjóðsins þar sem hún taldi starfsumhverfi stjórnarmanna sjóðsins ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Þá sagði hún að stjórnin væri ekki stefnumarkandi í stórum málum er vörðuðu sjóðinn og því væri hlutverk stjórnarmanna óljóst, þrátt fyrir að ábyrgð þeirra lögum samkvæmt væri mikil.
Árni Páll leggur áherslu á þetta í bréfi sínu til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, og segir stjórnarmenn í sjóðnum bera fjárhagslega ábyrgð á rekstri sjóðsins, í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki.
Á meðan ekki sé búið að bregðast við athugasemdum Steinunnar Valdísar, og skýra raunverulegt hlutverk stjórnarmanna, þá verði enginn tilnefndur í stjórn sjóðsins að hálfu Samfylkingarinnar.
Bréf Árna Páls til Eyglóar Harðardóttur. Bréf - 15. okt.