Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segist enn þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það sé ekki von á stefnubreytingu í þessum efnum á næsta landsfundi flokksins sem fer fram síðar í þessum mánuði.
Í frétt á vef Hringbrautar, sem byggir á viðtali við Árna Pál í þættinum Þjóðbraut sem sýndur var á sjónvarpsstöðinni í gær, segir að Árni Páll sé með efasemdir um Evrópusambandið.
Árni Páll segist stöðugt vera með efasemdir um Evrópusambandið. „Ég hef alltaf verið skeptískur Evrópusinni og endurmet það reglulega hvort þetta sé besti hluturinn fyrir Ísland. Ég skrifaði um þetta langan greinarflokk árið 2012 og komst þá að þeirri niðurstöðu að þetta væri enn besti kosturinn fyrir Ísland. Ég er enn þeirrar skoðunar að þetta sé besti kosturinn fyrir Ísland.“
Hann segist hafa tekið það skýrt fram í viðtalinu að þetta væri enn afstaða hans.
Stefnubreyting ekki á dagskrá
Í viðtalinu spurði Páll Magnússon, stjórnandi Þjóðbrautar, hvort að EES-samningurinn dygði ekki til, en með honum hefur Ísland tekið upp um 70 prósent af regluverki Evrópusambandsins. Árni Páll segist hafa svarað því til að það væri ekki nóg. „Það vantar mjög mikilvæga þætti sem skiptu máli. Gjaldmiðlamálin eru stærsti þátturinn þar. Þá spurði spyrjandinn mig hvort það myndi breyta afstöðu minni ef það væri hægt að finna aðra lausn á því, væri þá nóg að búa við EES-samninginn. Ég sagði að ef það væri hægt að finna aðild að alþjóðlega viðurkenndum markaðshæfum gjaldmiðli sem virkar þá myndi það breyta þeirri stöðu. Það hefur engum tekist að finna það.“
Árni Páll segir því að ekki sé von á stefnubreytingu hjá Samfylkingunni í Evrópusambandsmálum á landsfundi síðar í þessum mánuði, en hann er einn í framboði til formanns flokksins. Samkvæmt síðustu samþykktu stjórnmálaályktun flokksins er það yfirlýst stefna hans að ganga í Evrópusambandið.