Kosningabandalag miðju- og vinstriflokka hefur ekkert verið rætt á vettvangi Samfylkingarinnar og Árni Páll Árnason, formaður flokksins, tekur fálega í að stíga til hliðar fyrir Katrínu Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, svo hún geti leitt slíkt bandalag. Þetta kemur fram í viðtali við Árna Pál í Fréttablaðinu í dag.
Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson skrifaði grein sem birtist á Kjarnanum ívikunni og vakti mikla athygli. Þar kallaði hann eftir því að vinstri- og jafnaðarmenn fylki sér á bakvið Katrínu Jakobsdóttir sem leiðtoga nýs sameiginlegs framboðs í anda R-listans. „Ef hún hefur áhuga á að hrifsa samfélagið úr járnklóm hagsmuna, nýfrjálshyggju og lýðskrumara, þá verður hún að stíga fram og sameina vinstri– og miðjumenn að baki sér. Og aðrir forystumenn eiga að víkja. Þeir eiga að taka hagsmuni þjóðar fram yfir persónulegan metnað og verða riddarar í sveit Katrínar Jakobsdóttur. Hennar tími er einfaldlega runninn upp. Hvort sem henni líkar betur eða verr,“ Segir Jón Kalman í greininni.
Árni Páll segir persónur ekki aðalatriðið
Árni Páll var spurður út í mögulegt kosningabandalag í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hann að það sé mjög mikilvægt að reyna að byggja valkost umbótasinnaðra afla um annars konar stjórnarstefnu. "Ég hef lagt mikið kapp á það að vinna með hinum stjórnarandstöðuflokkunum og það hefur gengið sífellt betur. Þessir flokkar eru að vinna saman í meirihluta í Reykjavík og gengur ágætlega. Það er líka mín sannfæring að falli ríkisstjórn beri stjórnarandstöðu siðferðileg skylda til að reyna að mynda meirihlutastjórn. Það hefur ekki verið rætt á vettvangi Samfylkingarinnar hvort ganga eigi til kosningabandalags og ég sé ekki betur en að það sé líka órætt í öðrum flokkum. Við skulum sjá hvernig þetta þróast.“
Aðspurður um hvort til greina komi að stíga til hliðar fyrir Katrínu Jakobsdóttur segir Árni Páll: "Katrín Jakobsdóttir er góð vinkona mín og við vinnum náið saman. En ég held að persónur séu ekki aðalatriðið. Ég held að stjórnmálabarátta snúist um hugmyndir. Það er hins vegar mikil freisting að reyna að stytta sér leið og halda að einhverjar manneskjur geti breytt öllu. Íslensk stjórnmál eru í hugmyndakreppu og flokkarnir eru ekki að setja fram sýn um það sem mestu skiptir: Hvernig tryggja eigi framtíð fyrir unga fólkið okkar í þessu landi, fólkið sem er þegar flutt eða er að hugsa sér til hreyfings. Þar hefur hreyfing jafnaðarmanna svör umfram aðrar stjórnmálahreyfingar. Og óháð allri persónupólitík verður alltaf til hreyfing jafnaðarmanna á Íslandi, löngu eftir minn dag.“