Laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 4,6 prósent milli fyrsta ársfjórðungs 2014 og fyrsta ársfjórðungs 2015. Á sama tíma hækkuðu laun hjá opinberum starfsmönnum um 9,6 prósent, þar af laun ríkisstarfsmanna um 7,4 prósent og laun starfsmanna sveitarfélaga um 11,6 prósent. Að meðaltali hækkuðu laun um 5,9 prósent.
Hagstofan birti í dag þróun launavísitölunnar. Tekið er fram að í vísitölu launa á fyrsta ársfjórðungi 2015 gætir áhrifa bæði nýrra og eldri kjarasamninga ríkis og sveitarfélaga við nokkur sveitarfélög.
Sé litið til launaþróunar frá upphafi árs 2013 þá hafa laun starfsmanna sveitarfélaga hækkað mest, eða um 16 prósent. Laun ríkisstarfsmanna hafa á þessum tíma hækkað um tæp 14 prósent og laun starfsmanna á almennum vinnumarkaði um rúm tíu prósent, eins og sjá má á línuritinu hér að neðan.