Fjölmiðla- og athafnamaðurinn Ásgeir Kolbeinsson hefur kært Kamran Keivanlou, einn meðeiganda sinn að félaginu 101 Austurstræti ehf., sem er leyfishafi og rekstraraðili skemmtistaðarins Austur, til lögreglu fyrir hótanir í sinn garð. Rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir í samtali við Kjarnann að kæra hafi borist embættinu og málið sé í rannsókn, en Ásgeir hefur veitt lögreglu munnlega skýrslu vegna málsins. Þá hefur Kamran sömuleiðis verið kallaður til skýrslutöku hjá lögreglu vegna kærunnar.
Upptaka af meintum hótunum send lögreglu
Á meðal gagna sem Ásgeir hefur afhent lögreglu kæru sinni til stuðnings, er hljóðupptaka af samtali hans og Kamran sem átti sér stað á Austur á dögunum. Kjarninn hefur umrædda upptöku undir höndum en þar má heyra hvernig Kamran virðist hóta Ásgeiri og fjölskyldu hans, verði honum ekki hleypt að rekstri skemmtistaðarins.
Í samtali við Kjarnann neitar Kamran Keivanlou að hann hafi haft uppi hótanir við Ásgeir Kolbeinsson, og segir að upptaka af samtali þeirra sé fölsuð. Ásgeir hljóti að hafa fengið einhvern til að leika sig í samtalinu.
Ætluðu að selja sig út úr Austur
Ásgeir Kolbeinsson, framkvæmdastjóri 101 Austurstrætis, og félag í eigu Styrmis Þórs Bragasonar samþykktu kauptilboð frá félaginu Alfacom General Trading, sem er í eigu Kamran Keivanlou, í allt hlutafé í 101 Austurstræti árið 2013. Samkvæmt kaupsamningnum greiddi Alfacom þeim Ásgeiri og Styrmi Þór helming umsamins kaupverðs fyrir öll hlutabréf í félaginu við undirritun. Kjarninn hefur kaupsamninginn undir höndum, en mun ekki upplýsa um söluverð rekstrarfélags Austurs að beiðni seljenda, en það hleypur á tugum milljóna króna. Við undirskrift samningsins varð Kamran stjórnarformaður 101 Austurstrætis ehf.
Þess má geta að Kamran hefur sótt um tímabundið atvinnuleyfi á Íslandi sem sérfræðingur í persneskum teppum á mála hjá Alfacom General Trading. Vinnumálastofnun synjaði beiðni hans, sem var kærð til velferðarráðuneytisins sem staðfesti úrskurð Vinnumálastofnunar. Héraðsdómur felldi úr gildi úrskurð ráðuneytisins og ákvörðun Vinnumálastofnunar þann 22. september síðastliðinn, þar sem ráðuneytið hafði ekki sannreynt hvort þörf væri á umræddri sérfræðikunnáttu hér á landi.
Vanefndir á leið fyrir dómstóla
Ásgeir og Styrmir Þór hafa stefnt Alfacom til greiðslu á eftirstöðvum kaupsamningsins, og verður málið tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni. Kjarninn hefur stefnu málsins undir höndum. Þar kemur fram að Kamran hafi farið að venja komur sínar á Austur skömmu eftir að kaupsamningurinn var undirritaður þar sem hann gaf fyrirskipanir sem voru ýmist á borði stjórnar eða framkvæmdastjóra. Samkvæmt hluthafasamkomulagi sem undirritað var samhliða kaupsamningi, er kveðið á um að engar breytingar verði gerðar á stjórn félagsins og rekstri fyrr en kaupverðið verði að fullu greitt. Þá segir í stefnunni að Kamran hafi haft í hótunum við starfsfólk og viðskiptavini sem leiddi til þess að honum var bannað að koma á skemmtistaðinn þegar hann var opinn.
Alfacom hefur lagt fram gagnstefnu í málinu þar sem þess er krafist að kaupum félagsins á 101 Austurstræti ehf. verði rift vegna vanefnda á kaupsamningnum.
Þá hefur Alfacom kært Ásgeir Kolbeinsson og fjármálastjóra Austurs til lögreglu sem og embættis sérstaks saksóknara í júnímánuði síðastliðnum fyrir fjárdrátt og fyrir að misnota greiðslukort 101 Austurstrætis í sína eigin þágu. Þau hafa bæði verið kölluð til skýrslutöku hjá lögreglu vegna málsins. Þá er í bréfi lögmanns Kamran til sérstaks saksóknara Ásgeir sakaður um að nota félag í hans eigu til að hafa fé af 101 Austurstræti ehf. og fyrir að draga sér hátt í tíu milljónir króna.
Í samtali við Kjarnann segir Ásgeir að um tilhæfulausar ásakanir sé að ræða og hann eigi von á því að lögregla muni láta málið niður falla á næstu dögum. Ásakanirnar hafi einungis verið lagðar fram til að reyna að sverta mannorð hans.
Íslandsbanki kærir stjórnarformann Austurs til lögreglu
Þá hefur Íslandsbanki kært Kamran Keivanlou, stjórnarformann 101 Austurstrætis, til lögreglu fyrir að blekkja starfsmann bankans til að gefa honum upp leyninúmer á reikningum félagsins, svo hann gæti greitt tilhæfulausa kröfu frá sjálfum sér upp á tæpar 4,4 milljónir króna út af reikningi 101 Austurstrætis í umboðsleysi. Þá hefur 101 Austurstræti sömuleiðis kært Kamran til lögreglu fyrir fjársvik vegna tilviksins.
Eftir að Íslandsbanki sagði upp viðskiptum við 101 Austurstræti og Borgun sagði upp þjónustusamningi við félagið í lok nóvember að beiðni forsvarsmanns Alfacom, stofnaði Ásgeir nýtt félag til að tryggja áframhaldandi rekstur Austurs. Það félag heitir Austurstræti 5, þar sem Vilhelm Patrick Bernhöft er í forsvari auk Ásgeirs. Með tilkomu félagsins var hægt að gera nýjan þjónustusamning við Borgun og opna nýja bankareikninga og þannig koma í veg fyrir að rekstri Austurs yrði sjálfhætt.
Kamran Keivanlou hefur ítrekað kvartað til lögreglu um að skemmtistaðurinn Austur sé nú í rekstri hjá félagi sem hvorki hafi tilskylin leyfi til rekstursins né gildandi húsaleigusaming vegna húsnæðisins við Austurstræti 7. Bæði lögregla og sýslmaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafa málið til rannsóknar, og hvort núverandi rekstrarfyrirkomulag brjóti í bága við útgefið rekstrarleyfi Austurs.
Í samtali við Kjarnann segir Ásgeir að hið nýja félag hafi ekki tekið við rekstri Austurs, það sé eingöngu tilkomið til að tryggja áframhaldandi rekstur skemmtistaðarins. Allar greiðslur sem Austurstræti 5 taki við renni óskiptar til rekstrarfélags Austurs, það er 101 Austurstrætis ehf.