Miðstjórn Alþýðusambands Íslands ASÍ gagnrýnir í tilkynningu harðlega þá afstöðu Samtaka atvinnulífsins (SA) að neita að ræða kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar í þeirri erfiðu kjaradeilu sem nú er uppi. "Afneitun af þessu tagi ber vott um takmörkuð veruleikatengsl og herðir aðeins hnútinn sem að þarf að leysa. Afstaða atvinnurekenda er ögrandi og skaðar það traust sem þarf að ríkja á milli aðila sem verða að ná samningum. Verkefnið fer ekkert, það verður bara erfiðara viðfangs. Miðstjórn ASÍ vísar því ábyrgð á stöðu mála í kjaradeilunum alfarið á hendur SA. Komi til víðtækra verkfalla á almennum vinnumarkaði síðar í mánuðinum er það á ábyrgð samtaka atvinnurekenda," segir í tilkynningunni.
Kjaraviðræður í algjörum hnút
Í gær var upplýst um að samningaviðræðum SA við VR og Flóabandalagið hjá ríkissáttarsemjara hefði veirð slitið.
Í tilkynningu frá SA vegna þessa segir: „Staðan í kjaradeilunum er nú mjög flókin og fáir góðir kostir í boði. Vandséð er að hægt sé að forða víðtækum verkföllum verkalýðshreyfingarinnar. Afleiðingar þeirra verða alvarlegar fyrir bæði launafólk, fyrirtæki og þjóðarhag. Verði ítrustu kröfur verkalýðsfélaganna knúnar fram með verkföllum verða afleiðingarnar hins vegar enn verri. Verðtryggðar skuldir heimila og fyrirtækja munu hækka mikið, vextir hækka og störfum fækka. Við slíkum búsifjum má Ísland vart við um þessar mundir en verkalýðsforystan hefur valið að fara þá leið. Þessi niðurstaða veldur Samtökum atvinnulífsins miklum vonbrigðum.
Samtök atvinnulífsins hafa verið tilbúin að koma til móts við kröfur verkslýðsfélaganna um verulega hækkun lægstu launa og umtalsverða hækkun dagvinnulauna fyrir þriggja ára samning, eða sem nemur um 24% hækkun. Þessu boði höfnuðu verkslýðsfélögin í dag án þess að leggja fram nokkrar raunhæfar lausnir um nýjan kjarasamning sem tryggir launafólki aukinn kaupmátt, viðheldur lágri verðbólgu og jafnvægi í efnahagslífinu.“
Félagsmenn VR samþykktu verkfall
Félagsmenn VR samþykktu verkfallsboðun í atkvæðagreiðslu sem lauk á hádegi í gær Verkföll innan VR munu hefjast þann 28. maí með tveggja daga verkfalli starfsmanna í hópbifreiðafyrirtækjum. Fleiri starfsgreinar munu svo fylgja í kjölfarið og ótímabundið allsherjarverkfall á að hefjast þann 6. júní.
Annars vegar var kosið meðal félagsmanna sem starfa í fyrirtækjum innan Samtaka atvinnulífsins og hins vegar innan Félags atvinnurekenda. Hjá SA sögðu 58 prósent já við boðun verkfall, en þátttakan var rúm 25 prósent. Hjá FA sögðu 57,4 prósent já en kosningaþátttaka var tæplega 30 prósent.
Starfsmenn í hópbifreiðafyrirtækjum fara sem fyrr segir í tveggja daga verkfall 28. maí. 30. maí fer starfsfólk á hótelum, gististöðum og baðstöðum í verkfall og 31. maí starfsfólk í flugafgreiðslu. 2. júní fer starfsfólk í skipafélögum og matvöruverslunum í verkföll og 4. júní starfsfólk olíufélaga. Öll verkföllin eru tveggja sólarhringa verkföll.
Þann 6. júní mun svo hefjast ótímabundið allsherjarverkfall hjá öllum félagsmönnum VR, LÍV og Flóabandalagsins. Þann sama dag mun ótímabundin vinnustöðvun hefjast hjá félagsmönnum Starfsgreinasambandsins sem hafa farið í regluleg sólarhringsverkföll frá því í lok apríl. Alls eru félagsmenn þeirra félaga sem fara í allsherjarverkfall, semjist ekki fyrir 6. júní, um 65 þúsund talsins.