Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur skorað á íslensk stjórnvöld að taka starfsemi Primera Air og Primera Air Nordic til „rækilegrar skoðunar og stöðva starfsemi þeirra.“ Sambandið segir að félögin brjóti lög og kjarasamninga á því starfsfólki sem sinnir flugi fyrir þau hér á landi. Primera Air hefur hafnað þessu. ASÍ segist hafa gögn undir höndum sem sýni fram á brot Primera, og hefur afhent Vinnumálastofnun gögnin.
Í bréfi Magnúsar M. Norðdahl, lögmanns ASÍ, segir að íslensk lög gildi um réttarstöðu áhafna hjá flugfélaginu, hvort sem þær hafi verið ráðnar beint til félagsins eða í gegnum starfsmannaleigur. Því eigi að fara eftir íslenskum kjarasamningum og íslenskum lögum þegar kemur að lágmarkslaunum og kjörum. Flugliðar hjá Primera fái hins vegar að jafnaði 206.580 krónur í verktakalaun þegar lágmarkslaun Flugfreyjufélags Íslands samkvæmt kjarasamningum eru á milli 230 og 250 þúsund. Þá eigi eftir að taka tillit til ýmissa annarra greiðslna.
Þá segir ASÍ einnig að samkvæmt lögum hafi fyrirtæki eins og Primera Air Nordic, sem hafi starfsmenn á Íslandi í 10 daga eða meira á 12 mánaða tímabili, upplýsingaskyldu gagnvart hinu opinbera. Vinnumálastofnun kann að óska eftir ýmsum upplýsingum eins og ráðningarsamningum. Ef fyrirtæki sinna ekki skyldum sínum eða brjóta gegn ákvæðum um lágmarkskjör og réttindi má Vinnumálastofnun krefjast þess að lögregla stöðvi vinnu tímabundið eða loki starfsemi þar til úrbætur hafa verið gerðar.
„Vonandi bregst fyrirtækið hratt og vel við athugun Vinnumálastofnunar og kemur starfsemi sinni í lögmætt horf. Ef ekki, standa ýmis þvingunarúrræði verkalýðshreyfingunni til boða sem beina má gegn hlutaðeigandi fyrirtækjum til þess að koma í veg fyrir ólögmæt félagsleg undirboð því fyrirtæki sem gera slíkt eru friðlaus hér á landi og erlendis.“
Grískar flugfreyjur voru ráðnar sem verktakar til félagsins frá áramótum í gegnum starfsmannaleigu á Guernsey, að því er fram kom í umfjöllun mbl.is um málið á dögunum. Þar kom fram að grunnlaunin væru 60 þúsund krónur auk prósentu af sölu um borð í vélinni.