„Núverandi ríkisstjórn hefur staðið föst á þeirri stefnu sinni að bankarnir eiga ekki að vera stikkfrí frá því að skila til samfélagsins eðlilegu framlagi." Þetta segir Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins og einn aðstoðarmanna forsætisráðherra, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann fjallar um möguleika við losun gjaldeyrishafta. Hann segir fjármálastofnanir og þrotabú föllnu bankanna haga sér eins og ríki í ríkinu og að það hljóti að vera eitt af stærstu verkefnum nýs árs að ríkisstjórn og löggjafinn láti til sín taka við að „knýja á um samfélagslega ábyrgð bankanna" Ásmundur Einar segir að ríkisstjórnir geti látið banka sæta samfélagslegri ábyrgð sé pólitískur vilji fyrir hendi og sterk forysta.
Gjaldþrotaleið eða útgönguskattur
Ásmundur segir eitt stærsta verkefni stjórnvalda í dag vera afnám hafta. „Markmið ríkisstjórnarinnar er að afnám haftanna valdi ekki kollsteypu í fjármálum þjóðarinnar. Veruleg undirbúningsvinna er að baki áætlunum um afnám hafta. Vinna þar undir handarjaðri ríkisstjórnar og Seðlabankans bæði erlendir og íslenskir sérfræðingar.Þrotabú bankanna og uppgjör þeirra eru veigamiklir þættir í afnámi gjaldeyrishaftanna. Til skamms tíma var talað um að ef þrotabúin legðu ekki fram raunhæfar tillögur um uppgjör á búunum, þar sem tekið væri tillit til fjármálalegs stöðugleika, þá yrðu búin knúin til gjaldþrotaskipta.
Fordæmi eru um útgönguskatta á fjármagn upp á 20 til 50 prósent. Hugmyndir þessa efnis voru í umræðunni á síðasta kjörtímabili m.a. hjá Lilju Mósesdóttur o.fl. en fyrri ríkisstjórn fékkst aldrei til að fara þessa leið. Lykilþáttur í sterkri stöðu Íslands er að lagaramminn okkar er traustur og við búum við krónu sem gjaldmiðil.
Eftir því sem vinnu ríkisstjórnar vindur fram er orðið skýrara að fleiri verkfæri koma til greina en gjaldþrotaskipti til að halda ábyrgð að þrotabúunum. Útgönguskattur á fjármagnsflutninga er eitt ráð sem þekkt er alþjóðalega. Fordæmi eru um útgönguskatta á fjármagn upp á 20 til 50 prósent. Hugmyndir þessa efnis voru í umræðunni á síðasta kjörtímabili m.a. hjá Lilju Mósesdóttur o.fl. en fyrri ríkisstjórn fékkst aldrei til að fara þessa leið. Lykilþáttur í sterkri stöðu Íslands er að lagaramminn okkar er traustur og við búum við krónu sem gjaldmiðil. Þrotabúin verða aðeins gerð upp í íslenskum krónum. Erlendir kröfuhafar þrotabúanna eru hægt en örugglega að átta sig á því að ríkisstjórninni er full alvara að standa vörð um hagsmuni almennings á Íslandi. Það sést til dæmis á því að ýmsir þeir sem áttu stórar kröfur í þrotabúin seldu kröfur sínar seinni hluta ársins." Þar á Ásmundur Einar væntanlega við vogunarsjóð John Paulsons, sem reyndar virðist enn eiga töluverðar kröfur í nafni annars félags.
Vill að bankarnir læri að haga sér
Ásmundur Einar gagnrýnir líka endrurreistu fjármálastofnanirnar Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankann fyrir skort á skilningi á samfélagslegri ábyrgð sinni. Ekki sé vanþörf á að skerpa á þeim skilningi. Ástæðan er sú að sumir bankarnir hafa hækkað útlánsvexti og aukið vaxtamun þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi lækkað stýrivexti sína. Komið hefur fram hjá Arion banka að ástæða þessa sé meðal annars sú að greiða þurfi sérstakan bankaskatt til ríkissjóð, sem er alls um átta milljarðar króna fyrir bankana þrjá, til að standa undir kostnaði við Leiðréttingu ríkisstjórnarinnar á verðtryggðum húsnæðislánum. Viðskiptavinir þess banka verða því, að minnsta kosti að hluta, látnir greiða fyrir þá aðgerð í formi hærri útlánsvaxta.
Ásmundur segir tekjur bankanna hafa aukist um tæplega milljarð vegna breytinga á vaxtamun í kjölfar lækkunar stýrivaxta.„Með þessum hætti hafa bankarnir mörg hundruð milljónir króna af almenningi.Verkalýðsfélög, t.d. VR, láta málið til sín taka og hafa beint fyrirspurnum til bankanna en fátt verið um svör. Augljóst er að bankarnir eru í þeirri stöðu að taka til sín fjármuni frá heimilunum í landinu með því að föndra við vaxtatöflurnar fyrir inn- og útlán. Almenningur er berskjaldaður gagnvart ásælni bankanna enda haga fjármálastofnanir og þrotabú föllnu bankanna sér eins og ríki í ríkinu. Það hlýtur að vera eitt af stærstu verkefnum nýs árs að ríkisstjórn og löggjafi láti til sín taka á þessu sviði til að knýja á um samfélagslega ábyrgð bankanna."