Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þeir sem vekja athygli á hættunni sem steðji að nágrannaríkjum Íslands séu „skotnir niður og ataðir auri í samfélagsumræðunni“ á Íslandi.
Ásmundur gerði hryðjuverkin í Kaupmannahöfn um helgina að umtalsefni á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins. Hann sagði að með morðunum hefði „gildum frelsis og laga“ verið mótmælt. „Nú lýsa trúbræður morðingjans yfir stuðningi við hann. Í nágrannalöndum okkar er opin umræða um þá hættu sem steðjar að hinum frjálsa heimi og þjóðfélögum vegna fjölgunar á árásum einstaklinga og hvers konar öfgahópa. Hér á landi á engin slík umræða sér stað og spurningin hvað við ætlum lengi að skila auðu í þeirri umræðu um öryggi íbúanna.“
Ásmundur sagði að á Íslandi hefðust menn öðruvísi að. „Þeir sem vekja athygli á hættunni sem steðjar að nágrönnum okkar eru skotnir niður og ataðir auri í samfélagsumræðunni sem aldrei kemst á það stig að rætt sé um málefnið.“
Hann sagði tjáningarfrelsið vera fótum troðið og að það virðist oft á tíðum aðeins vera fyrir útvalda. Hann fagnaði því að Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefði hafið umræðu um forvirkar rannsóknarheimildir. „Tökum umræðuna um þá ógn sem steðjar að í nágrannalöndum okkar, en við getum ekki tekið þá áhættu að hún berist ekki hingað,“ sagði Ásmundur að lokum.
Um miðjan janúar spurði Ásmundur að því á Facebook síðu sinni hvort bakgrunnur múslima á Íslandi hafi verið kannaður, og hvort einhverjir þeirra hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í löndum þar sem „óöld ríkir meðal múslima.“ Hann sagðist í kjölfarið vera að vekja umræðu um þessi mál. „Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum að hafa áhyggjur af því að hér leynist slíkt fólk. Ég hef ekki hugmynd um það. Mér finnst að við eigum að taka umræðuna um það. Hvað við viljum gera og hvernig við viljum standa að þessu,“ sagði hann í viðtali við Vísi.
Hann var í kjölfarið harðlega gagnrýndur bæði innan flokks og utan.