„Að slíkt samkomulag hafi verið til er út í Hróa hött,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), um ummæli Vigdísar Hauksdóttur þess efnis að gervöll verkalýðshreyfingin hafi gert þögult samkomulag við síðustu ríkisstjórn um að fara ekki í verkfall á meðan að sú stjórn sat. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Gylfi segir ásökunina alveg úr lausu lofti gripna hjá Vigdísi en að það komi „ekkert á óvart komandi frá henni.“
Gylfi segir síðustu ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafa rekið stefnu í velferðar- og skattamálum sem meiri sátt var um í samfélaginu en þá stefnu sem núverandi ríkisstjórn rekur.
Sagði þegjandi samkomulag hafa verið við lýði
Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, fullyrti í þættinum Eyjunni á Stöð 2 í gær að samkomulag hafi verið til staðar um að gervöll verkalýðsghreyfingin færi ekki í verkfall á meðan að vinstri stjórn var við völd á síðasta kjörtímabili. „Það var þegjandi samkomulag, við vitum það alveg,“ sagði Vigdís.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, setti ásökunina fram í þættinum Eyjunni í gær.
Hún sagði enn fremur að staðans sem væri uppi vegna kjaradeilna og verkfalla væri grafalvarleg. „Þá er ég fyrst og fremst að tala um þá aðila sem eru ríkisstarfsmenn og halda hér lífi sjúklinga í herkví, halda hér tveimur landbúnaðargreinum í herkví líka.“
Þar á Vigdís við verkföll þeirra stétta sem starfa á Landsspítalanum og þau áhrif sem verkföll dýralækna hafa haft á alifugla- og svínabú, sem geta ekki slátrað og selt ferskt á markað sökum þess. Vigdís sagðist ekki telja að dýralæknar, og raunar lögmenn hjá Sýslumanninum í Reykjavík sem eru líka í verkfalli, væru með lág laun.
Hjúkrunarfræðingar á leiðinni í allsherjarverkfall
Enn fjölgar þeim stéttum sem eru á leiðinni í verkfall. Atkvæðagreiðsla um boðun verkfalls hjúkrunarfræðinga lauk á miðnætti, en af þeim 76 prósentum félagsmanna sem tóku þátt í kosningunni, voru rúmlega 90 prósent fylgjandi því að fara í verkfall.
Ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga hefst því að óbreyttu þann 27. maí næstkomandi og mun standa þar til samningar nást. Verkfallið mun hafa víðtæk áhrif en það nær meðal annars til allra hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu, alls munu 2.146 hjúkrunarfræðingar fara í verkfall.