Fréttir af lækkandi verði á hlutabréfum og áframhaldandi fall olíuverðs eru allsráðandi í íslenskum og erlendum fjölmiðlum í dag. Bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið eru með forsíðufréttir um atburði gærdagsins, þegar hlutabréfavísitölur um allan heim féllu skarpt í kjölfar þess að hlutabréfabólan í Kína virðist vera sprungin.
Í fyrirsögn Morgunblaðsins stendur "Svartur dagur í kauphöllunum". Þar er farið yfir þá þróun sem átti sér stað í gær, þegar hlutabréf í Kína féllu um 8,5 prósent (og hafði fallið um fimm prósent á föstudag), FTSE-vísitalan í Bretlandi lækkaði um 4,6 prósent og Dow Jones-vísitalan í Bandaríkjunum um 3,6 prósent. Þá fór vert á tunnu á olíu niður í um 38 dali á heimsmarkaði, en það var um 116 dalir í júlí 2014. Verðið á olíu hefur ekki verið jafn lágt frá árinu 2009.
Versti dagurinn á Íslandi það sem af er ári
Á Íslandi lækkuðu hlutabréf í öllum skráðum félögum í verði í Kauphöll Íslands í gær. Viðskiptadagurinn var sá versti það sem af er ári og aðeins sex sinnum frá árinu 2010 hafa hlutabréf í Kauphöllinni lækkað meira á einum degi. Mest lækkuðu bréf í Össuri og Nýherja, um 4,3 prósent og 4,7 prósent. Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,5 prósent.
Morgunblaðið ræddi meðal annars við Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann efnahagssviðs Samtaka Atvinnulífsins. Hún sagði við blaðið að þótt Íslendingar hagnist á lægra verði innfluttra vara geti kreppa erlendis skert útflutningstekjur og leitt til lægra verðs á fiski og áli.
Á forsíðu Fréttablaðsins í dag stendur: "Áhyggjur af öðru hruni ótímabærar". Þar er lagt út frá samtali við Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóra VÍB, eignastýringarþjónustu Íslandsbanka. Hann segir í samtali við blaðið að íslenska kauphöllin sé mun heilbrigðari en áður. "Hún er dreifðari þar sem hluti fyrirtækja er með tekjur í erlendri mynt og hluti í innlendum. Það eru ólíkir hlutir sem hafa áhrif og fall markaða í Kína er ekki afgerandi fyrir íslenskan markað.“ Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, bendir síðan á að fallið á hlutabréfum í íslensku kauphöllinni í gær hafi einungis verið lítið brot af hækkun Úrvalsvísitölunnar það sem af er ári. Eftir daginn í gær nam hækkun vísitölunnar á árinu nítján prósentum.
Fallið heldur áfram í Asíu
Þeir sem voru að vonast eftir því að það versta væri yfirstaðið fá ekki ósk sína uppfyllta. Þegar markaðir opnuðu í Asíu í morgun hélt hið skarpa fall hlutabréfaverðs í Kína áfram. SCI (Shanghai Composite Index) vísitala hlutabréfamarkaðarins í Kína lækkaði um 6,4 prósent þegar viðskipti hófust.
Öll ávöxtun hlutabréfamarkaðarins í Kína á árinu er nú horfin, og gott betur, þrátt fyrir að markaðurinn hafi nærri þrefaldast á einungis þriggja mánaða tímabili, frá mars til júní.
Fjárfestar virðast óttast efnahagserfiðleika í Kína, sem veldur því að þeir selja hlutabréf og færa sig í aðra eignaflokka.
FTSE vísitalan í Bretlandi virðist þó vera aðeins að braggast og hækkaði lítillega í morgun við opnun markaða. Samkvæmt frétt BBC nemur hækkunin nú, rétt um klukkan átta að íslenskum tíma, um 1,9 prósentum.
Íslenska kauphöllin opnar eftir um klukkutíma og bandarískir markaðir síðdegis í dag.