Atli Þór Fanndal, sem var sagt upp störfum sem blaðamaður á DV í gær, segir að Björn Ingi Hrafnsson, nýr aðaleigandi miðilsins, ætli sér að breyta DV í kjölturakka sem ekki geltir. Í facebookfærslu um málið segir Atli Þór: „Eftir að Björn Ingi keypti DV gat hann ekki beðið í svo mikið sem sólarhring áður en hann fór að atast í mér. Það sem angraði hann var færsla á Facebook þar sem ég gagnrýndi að ekki væri greint almennilega frá því hvernig kaup hans á DV voru fjármögnuð. Birni Inga líkaði ekki „tónninn“ í Facebook-færslunni minni, hann fullyrti að allt væri upp á borðum en gat svo ekki svarað spurningum mínum. Hann sagði að greint yrði frá öllu með tíð og tíma, ég yrði bara að bíða hægur, en í rauninni kæmi mér þetta bara ekkert við. Samtalið var innihaldsrýrt en markmið Björns Inga augljóst: að ala á sjálfsritskoðun og sýna hver valdið hefur. Þessar aðferðir eru ekki nýjar af nálinni, ég hef margsinnis séð eigendur fjölmiðla beita þeim".
Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi DV.
Fyrr í dag tilkynnti Jóhann Páll Jóhannsson að hann hefði sagt upp störfum á DV. Hann sagði einnig að Eggert Skúlason, nýráðinn ritstjóri DV, hefði sagt að blaðamennska á borð við þá sem tíðkaðist í máli Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra yrði ekki liðin á hans vakt. Þetta hafi blaðamönnum verið gert ljóst á ritstjórnarfundi síðastliðinn föstudag. Eggert skrifaði á Facebook-síðu sína svar við yfirlýsingu Jóhanns Páls. Eggert segir í svari sínu hafa haldið fund með starfsmönnum DV eftir ráðningu sína þar sem „allir gætu blásið og sagt sínar skoðanir á mér [Eggerti] og málefnum almennt.“
Eggert greinir svo frá því að hann hefði ekki fjallað um Lekamálið með sama hætti og DV gerði þegar Reynir Traustason var ritstjóri. „Ég hefði aldrei birt allt það magn frétta sem blaðið og vefmiðillinn gerði, það var einfaldlega ekki þörf á því,“ segir Eggert á Facebook. „Ég fylgdist með umfjöllun um þetta mál og endalausar fréttir hreinlega rugluðu mig í rýminu.“ Hann bætir því svo við að DV muni halda áfram að fjalla um lekamálið og leiða það mál til lykta, þegar nýjar upplýsingar berast.
Færsla Atla Þórs Fanndal:
„Á sunnudag var mér tilkynnt að þjónustu minnar væri ekki lengur óskað á DV. Það var reyndar ágætt, enda hafði ég þá ákveðið að netvaktin mín í gær yrði sú síðasta.
Björn Ingi Hrafnsson ætlar að breyta DV í kjölturakka sem ekki geltir. Staðan er ekki flóknari en svo. Til þess hefur hann handvalið fólk sem þjónar tvenns konar hlutverki; annars vegar eru ráðnir inn ódýrir málaliðar til að berja niður gagnrýna fréttamennsku og hins vegar pakkaskraut sem á að gefa DV ásýnd virðulegs fjölmiðils.
Eftir að Björn Ingi keypti DV gat hann ekki beðið í svo mikið sem sólarhring áður en hann fór að atast í mér. Það sem angraði hann var færsla á Facebook þar sem ég gagnrýndi að ekki væri greint almennilega frá því hvernig kaup hans á DV voru fjármögnuð. Birni Inga líkaði ekki „tónninn“ í Facebook-færslunni minni, hann fullyrti að allt væri upp á borðum en gat svo ekki svarað spurningum mínum. Hann sagði að greint yrði frá öllu með tíð og tíma, ég yrði bara að bíða hægur, en í rauninni kæmi mér þetta bara ekkert við. Samtalið var innihaldsrýrt en markmið Björns Inga augljóst: að ala á sjálfsritskoðun og sýna hver valdið hefur. Þessar aðferðir eru ekki nýjar af nálinni, ég hef margsinnis séð eigendur fjölmiðla beita þeim.
Fljótlega eftir samtalið sagði hann Hallgrími Thorsteinssyni, þáverandi ritstjóra, að hann vildi mig burt. Skömmu síðar átti Björn Ingi einkafundi með hverjum og einum starfsmanni DV og svo hófust hreinsanirnar. Sparnaður var opinbera ástæðan og tilviljun ein réð því líklega að meðal þeirra sem fóru voru þeir sem spurðu Björn Inga hreint út hvernig hann ætlaði að skrúfa fyrir súrefnið.
Eigendur DV segja upp blaðafólki á gólfinu en margfalda fjölda yfirmanna - allt í nafni hagræðingar. Sú ástæða sem mér var gefin er að nú verði ekki keypta efni frá lausapennum lengur. Undanfarna daga hafa þeir tilkynnt um fjölda nýrra pistlahöfunda sem skrifa munu fyrir DV og það sem lausapennar. Markmiðið er ekki að spara heldur að gelda.
Eggert Skúlason spunameistari er orðinn ritstjóri blaðsins. Honum finnst lekamálið leiðinlegt og óeðlileg fréttamennska. Viðurkennir meira að segja að hann hafi verið svolítið ruglaður í rýminu vegna þess hvað var skrifað mikið um það. Honum fannst fréttaskýring um Framsóknarflokkinn og fasisma of löng og skildi hana ekki. Stundum eru mikillæg fréttamál leiðinleg og flókin. Hingað til hefur verið talið mikilvægt að þeir sem ráðnir eru til ritstjórnar hafi á þessu örlítinn skilning.
Ég hef unnið fyrir alls kyns fígúrur. Fjölmiðlaumhverfið á Íslandi er hörmulegt þegar kemur að eigendavaldi, sukki og sjálfsritskoðun. Í flestum tilvikum – því miður – rísum við fjölmiðlafólk ekki undir lýðræðislegri ábyrgð okkar. Lekamálið er hins vegar undantekning. Lærdómurinn ætti auðvitað að vera sá að við þurfum meira af slíku en ekki minna.
Stundum held ég að Björn Ingi og meðreiðarsveinar hans séu svo vitlausir að þeir skilji ekki hvað þeir eru að gera. Aðra daga er augjóst að hér er ágætlega útfærð en klaufalega framkvæmd áætlun í gangi. Líklega er þetta bara blanda af hvoru tveggja, blanda sem er vel krydduð af spillingu og siðleysi.
Mér þykir vænt um DV og hefur alltaf þótt. Ég ber virðingu fyrir fólkinu sem kom að uppbyggingu miðilsins. Það syrgir mig að sjá nýja eigendur niðurlægja það fólk með því að þrengja hægt og rólega í hengingarólinni. Ég dáist að þeim sem hafa úthald til að vinna þarna áfram en eru staðráðnir í því að fórna ekki prinsippum og góðu fréttanefi. Hvern dag sem þau halda út í þessu umhverfi er okkur hinum mikilvægur. Ég hins vegar legg ekkert nema fæð á það fólk sem ráðið var inn til að rífa DV niður. Það á bæði við um nýju yfirmennina og undirmenn sem láta ráða sig til slíkra verka.
Ég hef reynt að halda bara dampi og skrifa gagnrýnar fréttir þrátt fyrir að vita í hvað siglir. Ég er stoltur af mínum störfum hjá DV nú og áður. Hins vegar get ég ekki afsakað fyrir mér að vera pakkaskraut á umbúðum andlýðræðisafla sem eru svo sturluð af frekju að þau geta ekki leyft litla DV að vera til. Blaðið þarf að kaupa og skemma og sá hlær best sem á spilltustu vinina."