Á þeim tíma sem Kjarninn hefur verið starfandi, frá 22. ágúst 2013, hefur verið að teiknast upp merkileg staða í efnahagslífinu. Forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gaf tóninn í fyrsta ítarlega viðtalinu sem hann veitti eftir að ríkisstjórn hans tók við á vormánuðum. „Stundin nálgast“ var forsíðufyrirsögnin. Hún var skírskotun í þá mikilvægu stund sem tengist afnámi eða rýmkun fjármagnshafta, samningum við kröfuhafa föllnu bankanna og stefnumörkun um hvernig stýra skuli þjóðarskútinni í kjölfarið. Þetta fyrsta starfsár Kjarnans í þjóðmálaumræðunni einkenndist ekki síst af þessum tóni sem forsætisráðherra gaf í viðtalinu.
Þó að ekki hafi enn verið stigin stór skref í átt að afnámi eða rýmkun hafta nálgast sú stund óðum. Ríkisstjórnin, með Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson fremsta í flokki, hefur nú þegar fengið erlenda sérfræðinga til þess að hjálpa til við að höggva á hnúta og liðka fyrir möguleikum á því að losa Ísland úr haftabúskapnum. Á meðal þeirra sem aðstoða íslensk stjórnvöld er Lee Buchheit, maður sem aðstoðaði við að ná samningum við Hollendinga og Breta vegna Icesave-skuldar Landsbankans. Eins og kunnugt er vann Ísland fullnaðarsigur í því máli að lokum með dómi fyrir EFTA-dómstólnum eftir að samningum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_08_21/30[/embed]
Breyttir tímar
Kjarninn fjallaði töluvert um neytendamál ýmiss konar á fyrsta starfsári sínu, ekki síst stöðu mála á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Mikil spenna hefur verið að byggjast upp á markaðnum allt undanfarið ár og hafa hálfgerð neyðaróp heyrst í fjölmiðlum frá fólki sem á erfitt með að koma þaki yfir höfuðið með leigu eða kaupum. Neyðarópin heyrðust ekki síst frá viðmælendum Kjarnans, sem kvörtuðu yfir ónægu framboði af litlum og meðalstórum íbúðum, erfiðum fjármögnunarskilyrðum og úrræðaleysi stjórnvalda og sveitarstjórna þegar að þessu kemur. Þúsundir Íslendinga á höfuðborgarsvæðinu glíma við húsnæðisvanda og eiga í erfiðleikum með að koma þaki yfir höfuðið.
Í fjórðu útgáfu Kjarnans, um miðjan septembermánuð, var þessi vandi til ítarlegrar umfjöllunar undir fyrirsögn á forsíðunni; Ný bóla skrifuð í skýin. Kjarninn var miðpunktur þessarar umræðu og velti upp ólíkum sjónarmiðum. Leigumarkaðurinn var ekki síst í kastljósinu, en undanfarið ár hefur leiguverð í Reykjavík á fermetra hækkað um 9,3 prósent að raunvirði. Álit, leiðarar og almenn skoðanaskrif ritstjórnarinnar voru helguð þessu viðfangsefni og ekki síst hvernig skuldaleiðrétting stjórnvalda tónaði saman við þessar aðstæður; hvort það væri hugsanlegt að skuldaleiðréttingaráform stjórnvalda myndu ýta undir aukna einkaneyslu og stuðla að frekari hækkun fasteignaverðs með tilheyrandi erfiðleikum fyrir þá sem væru að stíga fyrstu skrefin á fasteignamarkaði.
Þetta er aðeins brot af umfjöllun um þetta málefni. Sjá má umfjöllunina í heild í Kjarnanum.