Tónelskandi fólk á Íslandi er búið að vera mjög heppið hvað varðar komu erlends tónlistarfólks hingað til lands í ár. Óhætt er að fullyrða að úrval tónleika og tónlistarhátíða er búið að vera með besta móti undanfarin misseri og virðist ekkert lát vera á því. Þegar þessi orð eru rituð eru tvær stórar hátíðir að baki og sú þriðja u.þ.b. að fara að detta í gang.
All Tomorrow‘s Parties er bresk tónlistarhátíð sem haldin verður í þriðja skiptið á fyrrum herstöð NATO á Ásbrú dagana 2., 3. og 4. júlí næstkomandi. Hátíð þessi var haldin í fyrsta skiptið á suðurströnd Englands árið 2000 í smábænum Camber Sands sem er í u.þ.b. eins og hálfs tíma lestarferð frá London. Hugmyndina að hátíðinni eiga Englendingarnir Barry Hogan og Deborah Kee Higgins og er hún sú að hljómsveitir, tónlistarfólk eða kvikmyndargerðarfólk hefur verið gert að svokölluðum sýningarstjórum (e. curator) sem setja saman tónleikadagskrá með sínu eftirlætis tónlistarfólki og hljómsveitum.
Tónleikaprógrammið á að endurspegla plötusafn þess sem er sýningarstjóri hátíðarinnar hverju sinni. Meðal þeirra sem fengin hafa verið til verksins eru hljómsveitir á borð við Nick Cave and the Bad Seeds, The National, Modest Mouse, The Flaming Lips, Yeah Yeah Yeahs, The Breeders, Sleater-Kinney, The Shins, Shellac, Autechre, My Bloody Valetine, Mogwai, Sonic Youth, TV On The Radio, Pavement, The Mars Volta og Belle and Sebastian. Einnig hafa myndlistarmennirnir Jake og Dinos Chapman verið sýningarstjórar sem og kvikmyndagerðamennirnir Matt Groening (höfundur The Simpsons) og Vincent Gallo verið heiðurs aðnjótandi að velja atriði á hátíðina sem haldin hefur verið í Englandi, Bandaríkjunum, Japan, Ástralíu og nú síðast á Íslandi.
Tónlistarhátíðin hefur ávallt verið haldin á afdönkuðum sumarleyfisstöðum þar sem tónleikagestum stendur til boða gisting í litlum íbúðum og að vera í mikilli nálægð við tónlistarfólkið sem fram kemur á hátíðunum.
All Tomorrow's Parties - Music Documentary Trailer
https://www.youtube.com/watch?v=27sS-CflbI0
Á fimmta tug tónlistaratriða koma fram á hátíðinni í ár og er úrvalið á tónlistaratriðum fjölbreytt og tónlistardagskrá þétt alla daga hátíðarinnar. Ef eitthvað mætti setja út á hátíðina í ár þá er það helst hvað hallar mikið á kvenkyns flytjendur sem eru ekki mjög margar á hátíðinni í þetta skiptið. Hlutföllinn á milli erlendra og innlendra flytjenda eru nokkuð jöfn og eru flestir þeirra mikill hvalreki fyrir unnendur framsækinnar tónlistar á öllum sviðum. Hér er upptalning nokkurra hljómsveita sem Kjarninn telur skylda á að sjá og kynna sér.
Fimmtudaginn spila mörg þekktustu nafnanna á hátíðinni og meðal þeirra sem spila er skoska þjóðlagapoppsveitin Belle & Sebastian sem tvívegis hefur spilað tónleika hér á landi, einu sinni á Nasa og í hitt skiptið á Bræðslunni á Borgarfirði Eystri. Hljómsveitin hefur verið að í um tvo áratugi og er hún einn af kyndilberum hinnar svokölluðu krúttkynslóðar og á hún fjölda frábærra laga í sínum ranni enda hefur hún gefið út níu breiðskífur. Nýjasta plata þeirra, Girls in Peacetime Want to Dance er fínasti gripur en þeirra bestu plötur eru án vafa Boy With The Arab Strab, Tigermilk og The Life Pursuit. Chelsea Wolfe er frábær og ein fárra kvenlistamanna sem fram koma á hátíðinni og á hún að baki tvær frábærar breiðskífur og hennar þriðja kemur út í ágúst. Tónlist hennar er dularfullur hrærigrautur sem minnir á köflum á Earth, Sonic Youth, PJ Harvey og SUNN O))).
Belle & Sebastian.
Þekktust er hún líklega fyrir að eiga lagið „Feral Love“ í sjónvarpsþáttaröðinni Game of Thrones. Deafheaven er bandarísk svartmálmsveit sem stofnuð var fyrir fjórum árum í San Francisco. Önnur breiðskífa þeirra heitir Sunbather og er með betri skífum síðari ára þar sem áhrifum frá sveimrokki og svartmálmi er blandað listilega vel saman. Grimm Grimm er einyrkjaverkefni Japana að nafni Koichi Yamanoha sem framreiðir skemmtilegt skynvillupopp undir þónokkrum barokk áhrifum. Ef þið ímyndið ykkur Syd Barrett, Bítlana og Nico saman að gera tónlist þá myndi útkoman sennilega líkjast tónlist Koichi.
Run The Jewels.
Iggy Pop þarf vart að kynna enda hefur hann verið að frá því á sjöunda áratugnum og í ljósi tónlistarsögunnar er merkilegt að bera hann augum og eyrum þó hann sé ekki það ferskasta á hátíðinni. Aðrar goðsagnir á fimmtudagskvöldinu eru pólitíska hiphop-sveitin Public Enemy sem eru enn í fullu fjöri, þeirra bestu plötur, It Takes a Nation of Millions to Holds Us Back og Fear of a Black Planet komu út á síðustu öld og þykja enn með merkari hiphop-skífum allra tíma. Önnur hiphop-sveit sem spilar á fimmtudeginum og er alls ekki síðri er Run The Jewels sem leidd er af þeim El-P og Killer Mike og eru báðar breiðskífur þeirra með betri hiphop-skífum sem komið hafa út síðustu ár. Tvær af betri íslensku sveitunum sem fram koma í ár eru án efa Grísalappalísa og Kippi Kanínus og koma þær báðar fram á fimmtudagskvöldinu. Mr. Silla er einnig að gera frábæra hluti á væntanlegri breiðskífu sinni spilar hún rétt eftir miðnætti á fimmtudagskvöldinu.
Mr. Silla.
Belle & Sebastian – The Party Line
https://www.youtube.com/watch?v=3vS1Hf3CVGs
Chelsea Wolfe – Feral Love
https://www.youtube.com/watch?v=49MYJkEazIg
Deafheaven – Dream House
https://www.youtube.com/watch?v=RWyVhIBmdGw
Grimm Grimm – Hazy Eyes Maybe
https://www.youtube.com/watch?v=6RAwF07dm2c
Public Enemy – Don‘t Believe the Hype
https://www.youtube.com/watch?v=9vQaVIoEjOM
Run The Jewels – Run The Jewels
https://www.youtube.com/watch?v=AfuCLp8VEng
Föstudagurinn er einnig frábær og alls ekki síðri en fimmtudagskvöldið. Bardo Pond er sækadelíu-rokkkvintett frá Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Sveitin hefur verið að frá því um miðjan tíunda áratuginn og er sveitin leidd af hinum gítarspilandi Gibbons-bræðrum. Tónlist þeirra er sveimkennd, falleg og stundum myljandi þungur bræðingur sem minnir á Black Sabbath, My Bloody Valentine, Neil Young og Hawkwind.
Dönsku síðpönkararnir Iceage hafa verið leiðandi í pönksenunni í Kaupmannahöfn í nokkur ár og eru allar plötur þeirra algjört afbragð, sérstaklega fyrstu tvær. Þeir sverja sig í ætt við The Birthday Party, Liars, WU LYF, Big Black og fleiri góðar sveitir og gera það vel. Clipping. er þriðja hiphop-atriðið á hátíðini og líklegast framsæknasta af þeim öllum. Clipping. eru hávaða-hiphop af bestu sort og ættu að falla vel í kramið hjá fylgjendum Death Grips, Shabazz Palaces og Danny Brown. Ekki skemmir að þeir gefa út hjá gæðamerkinu Sub Pop í Seattle.
Frá Sub Pop koma einnig goðsagnirnar í Mudhoney sem fjölmargir íslenskir rokkunnendur þekkja þar sem sveitin kom fyrst fram í fæðingu gruggsins ásamt sveitum á borð við Nirvana, Tad, Soundgarden o.s.frv.. Önnur goðsagnakennd sveit er San Diego-sveitin Drive Like Jehu sem sneri aftur á sjónarsviðið á síðasta ári eftir tæplega tveggja áratuga hlé. Drive Like Jehu gaf út tvær framúrskarandi post-hardcore skífur á tíunda áratug síðustu aldar sem höfðu mótandi áhrif á sveitir á borð við At the Drive-In, …And You Will Know Us by the Trail of Dead, The Blood Brothers og The Locust. Þetta verða einu tónleikar þeirra í Evrópu á þessu ári og tónleikamyndbönd sýna að þeir hafa engu gleymt þrátt fyrir langa fjarveru.
Lundúnabúinn Kevin Martin fer fyrir hinni kyngimögnuðu rafsveit The Bug. Kevin er einn af frumkvöðlum fyrstu dubstep-bylgjunnar í London sem gaf af sér listamenn á borð við Burial, Skream, James Blake, Kode9 og fleiri. Nýjasta breiðskífa hans, Angels & Devils, kom út á vegum gæðamerkisins Ninja Tune og meðal gesta á henni Liz Harris úr Grouper, Death Grips og Inga Copeland. Kanadísku tilraunarokkararnir Godspeed You! Black Emperor risu uppúr síðrokkbylgjunni sem tröllreið öllu fyrir síðustu aldamót. Á svipuðum tíma og sveitir á borð Mogwai og Sigur Rós voru að stíga sín fyrstu skref gáfu GY!BE fyrstu skífur sína sem voru hlaðnar dulúð, dramatík og pólitískum boðskap.
Sænski teknó-snillingurinn Axel Willner fer fyrir The Field og er þetta í annað skiptið sem hann heimsækir Ísland. Hann er til mála hjá hinni virtu Kompakt-útgáfu í Þýskalandi sem einnig gefur út okkar eigin GusGus. Úr íslensku deildinni bera hæst tónskáldin Daníel Bjarnason og Valgeir Sigurðuson sem stýra kvöldi á vegum Bedroom Community (eitt metnaðarfyllsta útgáfufélag Íslands fyrr og síðar) og síðast en ekki síst JFDR sem er sólóverkefni Jófríðar Ákadóttur úr Samaris og Pascal Pinon.
Bardo Pond – Kali Yuga Blues
https://www.youtube.com/watch?v=3CUqURTZnzw
Clipping. – Work Work
https://www.youtube.com/watch?v=-2GozE6XEqg
Iceage – Forever
https://www.youtube.com/watch?v=EagCKe2Au8E
Drive Like Jehu – Here Come The Rome Plows
https://www.youtube.com/watch?v=h3JEkDShKoc
Mudhoney & Pearl Jam – Kick Out The Jams
https://www.youtube.com/watch?v=6Kz8Viy5d3w
Godspeed You! Black Emperor – Moya
https://www.youtube.com/watch?v=Rsf2LoLk3SA
The Bug – Void (ft. Grouper)
https://www.youtube.com/watch?v=3qVZ5wvBcGg
The Field – The Deal
https://www.youtube.com/watch?v=5I41qt-O8Rk
Margt frábært er á boðstólnum á laugardeginum, sem er síðasti tónleikadagurinn. Frá Montreal í Kanada kemur ein af áhugaverðari nýbylgjusveitum nútímans og heitir hún Ought. Sveitina stofnaði söngvarinn og gítarleikarinn Tim Beeler árið 2011. Tónlist þeirra svipar að miklu leyti sveita á borð við Talking Heads, Clinic, Television, Viet Cong og fleirri mætra sveita. Þrjár af öfgafyllstu tónlistaratriðunum í ár spila á laugardeginum og eru það Lightning Bolt, Ghostigital og Swans.
Lightning Bolt er litrík hávaðarokksveit frá Rhode Island í Bandaríkjunum og er skipuð skrímslatrymblinum Brian Chippendale og bassaleikaranum Brian Gibson. Þeir eru þekktir fyrir háværa tónleika þar sem sveitin spilar oftar en ekki á öllum stöðum nema hefðbundnu tónleikasviði. Ghostigital eiga enga sína líka og eru tónleikar með þeim ávallt mikil upplifun. Swans er listræn hávaðasveit sem stofnuð var af söngvaranum Michael Gira í New York árið 1982.
Swans er samtímasveit Sonic Youth, Nick Cave & The Bad Seeds og Pussy Galore og geta öfgafull þyngslin og hávaðinn í þeim verið slegið flestu við. Síðustu tvær breiðskífur þeirra eru með mestu stórvirkjum síðari ára. Íslenska deildin er hávær á laugardeginum verður nauðsynlegt að skella sér á tónleika HAM, Barna og Pink Street Boys.
HAM.
All Tomorrow‘s Parties er mikil veisla fyrir tónlistarunnendur sem sækja í framsækna tóna á jaðrinum og er mikill hvalreki að fá slíka hátíð til landsins. Hátt í þrjú þúsund manns sækja hátíðina erlendis frá og hafa Íslendingar verið að taka við sér undanfarna viku og stefnir í að hátíðin verði vel lukkuð í ár. Greinarhöfundur vonar að svo vel takist til að hátíðin nái að vaxa og dafna hér á landi um ókomin ár því hún er bráðskemmtileg bót við tónleikaflóruna hér á landi.
Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðu hennar.
Ought – The Weather Song
https://www.youtube.com/watch?v=qXt_Jpvtu5Q
Ghostigital – Don‘t Push Me
https://www.youtube.com/watch?v=HNXXARoL_qc
Lightning Bolt – Dracula Mountain
https://www.youtube.com/watch?v=8JpHoAnaPK0
Loop – Vapour
https://www.youtube.com/watch?v=eckF_Rcsk3w
Swans – A Screw (Holy Money)
https://www.youtube.com/watch?t=125&v=yHES9YAGGkU