Helmingur Íslendinga nefnir Icelandair sem uppáhaldsflugfélagið sitt. Flugfélagið er langvinsælasta flugfélag á Íslandi. Eldra fólk er hrifnari af Icelandair en það yngra, sem lætur sig það minna skipta hvaða flugfélag það notar til að fljúga til annarra landa.
Þriðjungur þjóðarinnar hefur engar sérstakar taugar til neins flugfélags og finnst ekki skipta máli með hverjum er flogið í frí. Hitt íslenska flugfélagið, WOWair, er í öðru sæti á vinsældarlista flugfélaga, en fimm prósent landsmanna nefnir það. Um tvö prósent þykir vænst um Easy Jet. Þetta kemur fram í ferðakönnum sem ferðavefurinn Dohop, leitarvél fyrir flug, bíla og hótel, framkvæmdi nýverið.
Könnunin var framkvæmd þannig að spurningar voru sendar út á þá 33 þúsund Íslendingar sem fylgja Dohop á Facebook og þeirra sjö þúsund Íslendinga sem eru á póstlista Dohop. Alls bárust 1.257 svör og svarhlutfallið því rúmlega þrjú prósent. Afar líklegt er að þeir sem skrá sig á póstlista Dohop eða fylgja fyrirtækinu á Facebook séu líklegri en aðrir til að fara til útlanda. Vert er að hafa það í huga við lestur niðurstöðunnar.
82 prósent farið til útlanda árið 2014
Í könnuninni var líka spurt hversu oft þýðið hefði farið til útlanda það sem af er ári 2014. Alls höfðu 39 prósent þeirra sem svöruðu farið tvisvar til fjórum sinnum og 34 prósent einu sinni. Um níu prósent höfðu farið fimm sinnum eða oftar en einungis 18 prósent svarenda hafði ekki farið til útlanda á árinu. Það þýðir að rúmlega átta af hverjum tíu Íslendingum hefur farið í utanlandsferð á þeim tæpu tíu mánuðum sem liðnir eru af árinu 2014.