Átta stjórnarandstöðuþingmenn, úr röðum Vinstri grænna, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Pírata, hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðskilnað starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Flutningsmaður tillögunnar er Ögmundur Jónasson en fram kemur í greinargerð hennar að málið hefur, í einni mynd eða annarri, áður verið flutt í sjö skipti.
Þingmennirnir sem flytja tillöguna á þessu þingi eru auk Ögmundar þau Helgi Hjörvar, Birgitta Jónsdóttir, Óttarr Proppé,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Tillagan gengur út á að samið verði og lagt fyrir Alþingi lagafrumvarp sem tryggi aðskilnað starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.
„Bankastarfsemin sem hér um ræðir, annars vegar rekstur fjárfestingarbanka og hins vegar starfsemi almennra viðskiptabanka, er gjörólík þannig að mikið álitamál er hvort þessi rekstur geti átt farsæla samleið í einu og sama fyrirtækinu ef mat á því fer fram á forsendum almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna þeirra sem eiga og starfrækja fjármálafyrirtækin.
Almenn viðskiptabankastarfsemi byggist á inn- og útlánum og því sem kalla má hefðbundna fjármálaþjónustu við einstaklinga og fyrirtæki og nýtur sem slík sérstakrar verndar hins opinbera sem baktryggir þessa starfsemi að ákveðnu marki með innlánavernd. Fjárfestingarbankar fást hins vegar við fjármögnun ýmiss konar fjárfestinga; viðskipti með verðbréf, hlutabréf, ráðgjafarstarfsemi og eignastýringu og rekstur þeirra er að jafnaði til muna áhættusæknari og áhættusamari en starfsemi hinna almennu viðskiptabanka,“ segir í greinargerðinni.
Bent er á að hérlendis hafi aðskilnaður í bankakerfinu áður verið til athugunar í viðskiptaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti, auk þess málið hefur verið tekið til umfjöllunar á Alþingi. Aftur á móti hafi ávallt verið ákveðið að bíða átekta, til að mynda eftir að endurskoðun á regluverki um fjármálastarfsmei ljúki á evrópska efnhagssvæðinu.
„Flutningsmenn tillögunnar líta svo á að ekki megi dragast lengur að breyta lagaumhverfi fjármálafyrirtækja hér á landi þannig að hefðbundin viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi verði aðskilin til fulls. Mikilvægt sé að þegar verið er að móta leikreglur á fjármálamarkaði til framtíðar verði um leið tryggt að ekki verði aftur unnt að misnota innstæður sparifjáreigenda í viðskiptabönkum í áhættusamar fjárfestingar sömu banka. Að mati flutningsmanna er reynslan ólygnust að þessu leyti og nauðsynlegt fyrir skattgreiðendur, ríkissjóð og sparifjáreigendur að tryggt verði með lögum að framvegis verði ekki tekin fráleit áhætta með fé af innlánsreikningum og að innstæður venjulegra viðskiptamanna bankanna verði tryggðar og forgangskröfur í þrotabú þeirra ef þeir verða gjaldþrota.“