Háskóla Íslands bárust um átta þúsund umsóknir um grunn- og framhaldsnám fyrir komandi skólaár. Þar af sóttu fimm þúsund manns um grunnnám og þrjú þúsund sóttu um framhaldsnám. Athygli vekur að umsóknir um grunnnám eru um tvö þúsund fleiri en sem nemur fjölda þeirra sem luku framhaldsskólanámi í vor og síðustu áramót.
Flestar umsóknir voru í viðskiptafræði, sálfræði og tölvunarfræði. Í tilkynningu frá Háskóla Íslands kemur fram að umsóknum í grunnnám í menntavísindum og kennslufræði fjölgar milli ára. Alls bárust menntavísindasviði nærri 670 umsóknir.
Á verkfræði- og náttúruvísindasviði bárust tæplega 1000 umsóknir til grunnnáms. Þar af sækja 250 um að hefja nám í tölvunarfræði og 135 vilja hefja nám í ferðamálafræði.
Á hugvísindasviði sóttu rúmlega 1070 manns um. Af þeim eru um 400 um nám í einu af þeim tólf tunugmálum sem boðið er upp á. Þá vilja 300 hefja grunnnám í íslensku.
Umsóknir á félagsvísindasviði voru tæplega 1.060 talsins til grunnnáms. Þar af vilja 446 læra viðskiptafræði, mest allra deilda í háskólanum. Umsóknir í lagadeild voru 160, um 130 í félagsráðgjöf og rúmlega eitt hundrað í stjórnmálafræði.
Um 1.100 umsóknir bárust heilbrigðisvísindasviði en af þeim eru um 270 sem þreyta próf í læknisfræði og sjúkraþjálfun dagana 11. og 12. júní. Af þeim verða 48 teknir inn í læknisfræði og 35 í sjúkraþjálfun. Sálfræði á sviðinu er einnig vinsæl og bárust um 300 umsóknir. Þá stefna um 180 í hjúkrunarfræði.
Miðað við fjölda umsókna og reynslu síðustu ára þá er búist við að nemendafjöldi við Háskóla Íslands verði hartnær sá sami og haustið 2014, eða á fjórtánda þúsund nemenda.