Nýjar tölur frá Ferðamálastofu sýna að afar hraður vöxtur ferðaþjónustunnar hér á landi markar ákveðin þáttaskil fyrir atvinnulífið. Frá áramótum hafa komið tæplega 700 þúsund ferðamenn til landsins, og í júlí fóru 180 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu, sem er 25 prósent aukning frá fyrra ári.
Töluvert hefur verið deilt um hvernig skuli haga almennri stefnumörkun í þessum efnum, þegar kemur að þætti hins opinbera. Óhætt er að segja að einkaaðilar hafi tekið við sér með uppbyggingu hótela, gististaða og fjölbreytilegrar þjónustu víðs vegar um landið. En þegar kemur að hinu opinbera þá vandast málið. Stjórnmálamenn hafa ekki náð að koma sér saman um skynsamlega heildstæða stefnu í þessum efnum, og er ekki sanngjarnt að kenna Ragnheiði Elínu Árnadóttur, ráðherra ferðamála, einni um það.
Það hefur áður verið bent á það á þessum vettvangi, að undarlegt sé að hið opinbera byrji ekki á metnaðarfullri innviðauppbyggingu - margfalt stærri og meiri að umfangi en nú er - í glæsilegum þjóðgörðum landsins. Með því móti væri mögulegt að byggja upp aðgangsstýringarkerfi, t.d. gegn greiðslu, og jafnframt að gera svæðin betur í stakk búin til þess að byggja upp þjónustu og vernda náttúruna um leið. Erfitt er að segja til um kostnað, en ekki er ólíklegt að verkefni eins og þetta geti kostað marga milljarða króna.
Eitt liggur fyrir og er það gríðarlega mikil innspýting ferðaþjónustunnar inn í hagkerfið, sem skilar sér í þúsundum starfa og veltu í ýmsum greinum. Það ætti af þeim sökum að vera óhætt að hugsa stórt og langt fram í tímann þegar kemur að þessar mikilvægu atvinnugrein, sem á endanum á allt sitt undir stórbrotinni náttúru landsins.