Atvinnuleysi í september síðastliðnum var einungis þrjú prósent. Það er minnsta atvinnuleysi sem mælst hefur frá því í október 2008, mánuðinum sem íslenskt fjármálakerfi hrundi. Þá mældist atvinnuleysi 1,9 prósent. Þetta kemur fram í nýjum atvinnuleysistölum Vinnumálastofnunar sem gerðar voru opinberar í gær.
Staðan í atvinnumálum á Íslandi er umtalsvert betri en hún er í Evrópu. Innan ríkja Evrópusambandsins er það 10,1 prósent og þegar horft er einvörðungu til þeirra ríkja sem eru með evru sem gjaldmiðil er atvinnuleysið 11,5 prósent. Ísland er einnig í mun betri stöðu en Bandaríkin þar sem atvinnuleysi mælist 6,1 prósent.
Fór mest í 9,5 prósent 2010
Alls voru 5.029 manns skráðir atvinnulausir hérlendis í síðasta mánuði. Þeim fækkaði um 393 að meðaltali frá mánuðinum á undan. Mest fór atvinnuleysið upp í 9,5 prósent eftir hrun. Það gerðist í febrúar 2010. Síðan hefur það farið hratt lækkandi samhliða auknum hagvexti, minni verðbólgu og öðrum jákvæðum hagtölum.
Rúmlega 500 fleiri konur eru atvinnulausar en karlar. Um helmingur atvinnulausra hefur verið án atvinnu í meira en hálft ár og 1.511 manns hafa verið atvinnulausir í meira en eitt ár. Á meðal íslenskra ungmenna, á aldrinum 18 til 24 ára, er atvinnuleysi fremur lítið. Alls eru 771 í þeim aldurshópi án atvinnu, eða um 14 prósent allra skráðra.
Atvinnuleysi lækkar í Evrópu
Staðan er aðeins öðruvísi í Evrópu. Í ágúst síðastliðnum voru fimm milljón ungmenna undir 25 ára aldri sem búa innan Evrópusambandsins atvinnulaus. Það eru um 21,6 prósent vinnufærra manna. Tölurnar fara þó lækkandi. Alls fækkaði ungum atvinnulausum innan sambandsins um 602 þúsund á milli ára. Þetta kemur fram í nýjustu tölum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Mest er atvinnuleysið í Grikklandi, þar sem 27 prósent vinnufæra manna er án atvinnu. Þar á eftir kemur Spánn með 24,4 prósent atvinnuleysi. Þess ber þó að geta að bæði löndin eru þekkt fyrir mikla svarta atvinnustarfsemi, sérstaklega í þjónustugeirum sem tengjast ferðaþjónustu með einhverjum hætti, og því eru líkur á því að raunatvinnuleysi sé minna en opinberar tölur gefa til kynna.