Atvinnuleysi mælist nú 4,1 prósent samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands. Samtals eru 7.500 atvinnulaus, 3.800 konur og 3.700 karlar. Áætlaður fjöldi á aldrinum 16 til 74 ára, sem er hinn skilgreindi vinnumarkaðsaldur, er ríflega 231 þúsund, af um 328 þúsund íbúa heildarjfölda. Atvinnuþátttaka er tæplega 80 prósent, og eru um 175 þúsund og sjö hundruð starfandi á vinnumarkaði, en ríflega 48 þúsund utan vinnumarkaðar á fyrrnefndu árabili.
Í alþjóðlegum samanburði er atvinnuleysi lítið hér á landi. Meðaltalið fyrir Evrópusambandsríkin er tæplega ellefu prósent, samkvæmt tölum Eurostat. Mest er það í löndum Suður-Evrópu við Miðjarðarhafið, á Spáni, Portúgal og Grikklandi. Þar mælist það yfir 20 prósent. Atvinnuleysið er hins vegar minna í Norður-Evrópu, og einna minnst á Norðurlöndunum og Þýskalandi, þar sem það mælist 4,9 prósent.
Í Bandaríkjunum mælist atvinnuleysi nú um sex prósent, og hefur farið nokkuð hratt minnkandi undanfarin ár, eftir að hafa farið yfir 10 prósent á árinu 2009.