Aukin þorskveiði mun skila tæplega 10 prósentum meiri útflutningsverðmætum á ársgrundvelli en á síðasta fiskveiðiári. Hagvaxtaráhrif þessu verða um 0,4 prósent, miðað við breytta veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnun fyrir næsta fiskveiðiár sem hefst þann 1. september næstkomandi. Stofnunin leggur til verulega aukna veiði á þorski og fer ráðgjöfin úr 216 þúsund tonnum í 239 þúsund tonn. Auk þess má búast við að hagvaxtaráhrif loðnuvertíðarinnar, sem var mun betri en í fyrra, verði um 0,8 prósent.
Hagfræðideild Landsbankans fjallar um ákvörðun Hafró í dag og möguleg áhrif á hagvöxt og útflutningsverðmæti þorskaflans. „Á síðasta ári námu þorskveiðar íslenskra skipa um 236 þúsund tonnum en þar af voru 221 þúsund tonn veidd á Íslandsmiðum en tæp 15 þúsund tonn á öðrum svæðum. Útflutt magn af þorski reyndist hins vegar 118 þúsund tonn eða um helmingi lægra en munurinn þarna á milli liggur í vinnslu á veiddum afla,“ segir í Hagsjá bankans. Útflutt magn af þorski skapaði þannig tæplega 90 milljarða króna útflutningstekjur og gera má ráð fyrir að 23 þúsund tonna aukning á kvóta skili tæplega 10 prósentum meira í tekjur, eða 8,6 milljörðum króna.
„Að öðru óbreyttu má gera ráð fyrir töluverðum hagvaxtaráhrifum af fiskveiðum á þessu ári en til viðbótar auknum þorskveiðum var loðnuvertíðin mun betri en í fyrra og má ætla að hagvaxtaráhrif loðnuvertíðarinnar nemi um 0,8%. Öfugt við þorskstofninn hefur loðnustofninn frekar leitað niður á við á síðustu árum,“ segir ennfremur. „Þorskurinn og loðnan eru þeir stofnar sem hafa skýrt mesta breytileikann í útflutningsverðmæti sjávarafurða síðustu 10 ár. Á allra síðustu árum hefur útflutningsverðmæti loðnu skýrt stóran hluta af breytileikanum í heildarútflutningsverðmætinu. Áhrifin voru jákvæð árin 2010-2013 en síðan komu til verulega neikvæð áhrif árið 2014 vegna lítilla veiða. Á síðustu árum hafa áhrifin verið töluvert minni hvað útflutning á þorski snertir. Það helgast bæði af því að hlutfallslegar breytingar í veiðum eru töluvert minni en í loðnu en einnig eru öfgarnar í verðbreytingum töluvert minni. Áhrifin af þorski hafa þó verið lítillega jákvæð öll árin frá 2011 sem helgast bæði af hækkun verðs en einnig meiri veiðum.“
Stofninn ekki sterkari um áratuga skeið
Hafrannsóknarstofnun kynnti þann 11. júní síðastliðinn nýja skýrslu um ástand nytjastofna á Íslandsmiðum. Í skýrslunni er lagt til að þorskkvóti verði aukinn um tíu prósent milli ára, í 239 þúsund tonn. Er þetta hæsta aflamark þorsks frá því um aldamót og nær tvöfalt meiri en árið 2008. Haft var eftir Jóhanni Sigurjónssyni, forstjóra Hafrannsóknarstofnunar, í fréttum RÚV að stofnin hafi ekki verið sterkari um margra áratuga skeið og sé það afrakstur skynsamlegrar fiskveiðistefnu. „Með samdrætti í sókn þá hefur tekist að breyta aldurssamsetningu stofnsins, hann er orðinn allur sterkari og líklegri til að geta af sér sterka árganga í framtíðinni. Sem er forsenda þess að hægt verði að vonast eftir áframhaldandi aukningu afla,“ sagði Jóhann. „Þetta er eiginlega bara næstum skólabókardæmi um það hvernig er hægt með markvissum fiskverndaraðgerðum að ná árangri.“
http://www.ruv.is/frett/thorskstofninn-ekki-sterkari-i-aratugi