Bæði Icelandair og WOW Air hafa lent í afbókunum farþega hingað til lands vegna ákvörðunar borgarstjórnar um að sniðganga ísraelskar vörur. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir við RÚV að flugfélagið hafi fengið fjölda skilaboða með ýmsum hætti frá fólki víða um heiminn þar sem ákvörðun borgarstjórnar er fordæmd og sagt að fólk sé hætt við ferðir. Skilaboðin komi víða að og erfitt sé að sjá í fljótu bragði hvaða áhrif málið hafi eða hversu mikill skaðinn sé.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW Air, segir að félagið hafi orðið vart við töluverðar afbókanir, auk þess sem fólk segist á samfélagsmiðlum ekki ætla að fljúga til Íslands. Hringt hafi verið og bréf send til WOW þar sem ferðir eru afbókaðar af þessum sökum. Hún sagði auk þess við mbl.is í morgun að málið hefði haft mikil áhrif á ferðaþjónustuna á Íslandi auk þess sem WOW hefði áhyggjur af kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi vegna málsins.
Búið að draga til baka
Borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson hefur hins vegar þegar tilkynnt að tillagan um sniðgöngu á ísraelskum vörum, sem var samþykkt í borgarstjórn á þriðjudaginn, verði dregin til baka. Þetta verður væntanlega gert á aukafundi sem boðað hefur verið til í borgarstjórn á morgun klukkan 17. Þar hafa bæði meirihluti og minnihluti borgarstjórnar lagt fram tillögur, sem reyndar eru samhljóða, um að borgarstjórn samþykki að draga til baka samþykkt sína frá 15. september síðastliðnum.
Dagur hefur sagt að ekki sé víst að önnur tillaga verði lögð fram þar sem skýrt verði að aðeins hafi verið átt við sniðgöngu á vörum af hernumdum svæðum. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði í Fréttablaðinu í morgun að ferðaskrifstofur hefðu fengið ótal fyrirspurnir, tölvupósta, afbókanir og haturspóst vegna málsins.