Allt of margir einstaklingar í Reykjanesbæ nota allar mögulegar leiðir til þess að komast hjá greiðslu útsvars á meðan sveitarfélagið berst í bökkum. Ef þetta fólk gæfi upp rétt eða að minnsta kosti réttari laun væri staða sveitarfélagsins önnur og betri. Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í grein sem hann birti á heimasíðu bæjarfélagsins.
Kjartan segir að það þurfi að verða hugarfarsbreyting í þessum málum, útsvarið sé helsti tekjustofn sveitarfélaga. Langflestir sem greiði lítið eða ekkert í útsvar séu í eigin rekstri, og svo séu þeir sem vinni svart. „Auðvitað geta verið góðar og gildar ástæður fyrir lágum uppgefnum launum í einhverjum tilfellum svosem erfitt árferði og tap. Þegar maður hins vegar veit um fólk í eigin rekstri sem hefur það gott, ferðast oft á ári til útlanda, á sumarhús og fleiri eignir, en gefur upp á sig lágmarkslaun, verður maður vonsvikinn. Á sama tíma gerir þetta sama fólk kröfur um fyrsta flokks þjónustu af hálfu Reykjanesbæjar, börnin ganga í skóla, fara í sund, eru á leikskólum, foreldrarnir á elliheimilum, fá aðstoð félagsþjónustunnar o.s.frv. á kostnað launþega sem greiða útsvar.“
Kjartan segir það þekkta aðferð að fólk í eigin rekstri gefi upp lögbundin lágmarkslaun og borgi þar með eins lítið útsvar og hægt sé. Svo borgi þetta fólk sér út arð, sem ber fjármagnstekjuskatt sem fer allur í ríkissjóð. „Þess vegna verða sveitarfélög af miklum útsvarstekjum vegna þessara leiða sem allt of margir fara.“ Það hafi áður fyrr spunnist umræða um skattsvik þegar álagningarskrár voru lagðar fram.
„Margir kynntu sér hana og létu vita að þeim líkaði illa hve margir virtust vera að svíkja undan skatti því það þýðir auðvitað bara að hinir, sem borguðu sín gjöld, héldu kerfinu og þjónustunni uppi fyrir allan hópinn.“ Undanfarið hafi umræðan farið lágt og fáir sýni þessu áhuga. Jafnvel séu komnir fram þingmenn sem vilji banna opinbera birtingu. Það finnst honum ekki góð hugmynd og bendir lesendum á að álagningarskráin liggi frammi á bæjarskrifstofum bæjarins.
Bæjarstjórinn veltir því einnig fyrir sér hvort þörf sé á hugarfarsbreyting um land allt hvað varðar þátttöku bæjarbúa í greiðslu sameiginlegs kostnaðar. „Markmiðið væri að ná samstöðu um að helst öllum þætti sjálfsagt að bera sinn hluta af kostnaði vegna sameiginlegrar þjónustu í stð þess að keppast um að greiða sem minnst.“
Eitt verst setta bæjarfélagið
Reykjanesbær er skuldsettasta sveitarfélag landsins. Skuldir þess, rúmir 40 milljarðar króna, eru um 250 prósent af reglulegum tekjum. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 þá er leyfilegt skuldahlutfall að hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar er því beinleiðis í andstöðu við lög.
Um síðustu áramót var fengin heimild til að leggja aukaálag ofan á hámarksútsvar hjá bænum, sem þýðir að íbúar Reykjanesbæjar þurfa að greiða hærri skatta til sveitarfélagsins en nokkurt annað sveitarfélag á landinu vegna afleitrar fjárhagsstöðu. Þeir borga 15,05 prósent á meðan að hámarksútsvar samkvæmt lögum er 14,52 prósent.
Til viðbótar hefur fasteignaskattur verið hækkaður, fastri yfirvinnu bæjarstarfsmanna sagt upp, föstum ökutækjastyrkjum þeirra sagt upp, fagsviðum fækkað, öllum framkvæmdastjórum sveitarfélagsins sagt upp.
Ný bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ, með Kjartan Má í broddi fylkingar, fengu KPMG til að gera óháða úttekt á fjármálum sveitarfélagsins eftir að þau tóku við stjórn bæjarins. Á grunni þeirrar úttekar var ný aðgerðaráætlun til átta ára kynnt til sögunnar, en henni er ætlað að ná skuldahlutfallinu niður fyrir 150 prósent fyrir árið 2021. Kjarninn skrifaði ítarlega um þessi mál nýlega, en þau skrif má lesa hér.
Í fyrsta lagi þarf að auka framlegð að lágmarki um 900 milljónir króna með aðgerðum í rekstri. Það þýðir auknar tekjur, til dæmis í gegnum þjónustugjöld og hækkun á útsvari, og lækkun rekstrarkostnaðar, til dæmis með uppsögnum á starfsfólki.
Í öðru lagi á að stöðva fjárflæði frá A-hluta sveitarsjóðs yfir til starfsemi sem tilheyrir B-hluta. Með öðrum orðum á að hætta að nota tekjur sveitafélagsins, lántökur eða eignasölur til að borga fyrir þann hluta sem tilheyrir B-hluta sveitasjóðs. Í þessu felst meðal annars að HS Veitur verði látnar greiða hámarksarð, um 900 milljónir króna á ári.
Í þriðja lagi á að takmarka fjárfestingar A-hluta sveitarfélagsins við 200 milljónir króna á ári þar til fjárhagsmarkmiðum verður náð.
Í fjórða lagi á að mæta aukinni greiðslurbyrði næstu ára með endurfjármögnun skulda og skuldbinda og skoða möguleika á frekari sölu eigna eða sameiningu B-hluta stofnana. Þær B-hluta stofnanir sem eru mest byrði á Reykjanesbæ eru Reykjaneshöfn og Fasteignir Reykjanesbæjar. Hvorug þeirra getur rekið sig án peninga frá A-hluta sveitasjóðsins eins og staðan er í dag.