Máli slitabús Kaupþings gegn Ágústi Guðmundssyni, forstjóra Bakkavarar, var vísað frá dómi í gær, en Kaupþing stefndi Ágústi þar sem hann hafði ábyrgst skuld Júlíusar Jónassonar, sem var starfsmaður einkabankaþjónustu bankans, skömmu fyrir fall hans.
Krafan á hendur Ágústi var upp á rúmlega 30 milljónir króna. Óskar Sigurðsson hrl., lögmaður slitabús Kaupþings í málinu, segir að niðurstaðan verði kærð til Hæstaréttar, en slitabúið var jafnframt dæmt til þess að greiða Ágústi 450 þúsund í málskostnað.
Er niðurstaða Héraðsdóms meðal annars sú að málið sé vanreifað, að hálfu slitabús Kaupþings, og ekki hafi verið gert nægilega grein fyrir því hverjar „hinar saknæmu og ólögmætu athafnir“ hafi verið.
Í desember 2012 féll dómur þess efnis að Júlíus þyrfti að endurgreiða Kaupþingi 28,3 milljónir til baka eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi þá ákvörðun stjórnar og stjórnenda Kaupþings að fella niður persónulegar ábyrgðir á lánum starfsmanna til hlutbréfakaupa.
Júlíus tók lán hjá Kaupþingi í erlendri mynt til þess að kaupa hlutabréf í Kaupþingi, 29. ágúst 2007. Um kúlúlán í erlendri mynt var að ræða, og átti að greiða lánið upp 1. september 2010. Samhliða lánasamningum gaf Júlíus út yfirlýsingu þar sem hann lagði bankanum að handveði hlutabréf sín í bankanum og einnig hlutabréf í Bakkavör Group. Í yfirlýsingunni var einnig veitt heimild til þess að krefja Júlíus um frekari tryggingar.
Ágúst Guðmundsson. Mynd: Bakkavor.com.
Þegar líða tók á árið 2008, og halla tók hratt undan fæti hjá Kaupþingi og íslensku fjármálakerfi, krafðist bankinn frekari trygginga. Þá kom Ágúst Guðmundsson til skjalanna, og lagði fram frekari tryggingar fyrir allri skuld Júlíusar við bankann, hlutdeildarskírteini í ríkisverðbréfasjóði KAUP GBM.
Málið á rætur að rekja til þessara trygginga, en Júlíus reyndist ekki geta greitt skuldina til baka, eftir að ákvörðuninni um niðurfellingu persónulegrar ábyrgða hans var rift. Þess vegna beindust spjótin að Ágústi og þeirra trygginga sem hann lagði fram.
Lesa má úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur hér að framan.