Baldvin Þór Bergsson hefur verið ráðinn einn umsjónarmanna Kastljóss í stað Sigmars Guðmundssonar. Baldvin starfaði um árabil sem fréttastjóri og vakstjóri á fréttastofu RÚV. Undanfarin ár hefur hann búið erlendis, meðal annars í Svíþjóð. Baldvin hefur skrifað vinsælar fréttaskýringar fyrir Kjarnann undanfarin misseri. Starfsmönnum RÚV var tilkynnt um ráðninguna á innri vef fyrirtækisins í dag. Baldvin mun koma til starfa 24. ágúst næstkomandi.
Baldvin Þór Bergsson.
Þann 24. júlí var tilkynnt að Þóra Arnórsdóttir, frétta- og dagskrárgerðarkona, hefði verið ráðin ritstjóri Kastljóss. Þóra hefur gegnt starfi aðstoðarritstjóra fréttaskýringarþáttarins og verið ritstjóri hans í fjarveru Sigmars Guðmundssonar. Sigmar mun fara í önnur störf hjá RÚV, en ekki hefur verið tilkynnt um hvaða störf það eru. Þátturinn er nú í sumarfríi en fer aftur í loftið þann 24. ágúst næstkomandi.
Þóra sagði í samtali við Kjarnann í kjölfar ráðningarinnar að þátturinn muni taka einhverjum breytingum, en að hún muni áfram leita til Sigmars, sem hafði verið hluti af Kastljósi í þrettán ár. Hún sagði Kastljós vera mikilvægan hluta af dagskrá RÚV. „Þátturinn verður enn öflugri og það verða fleiri sem munu koma að honum. Þetta skýrist allt í ágúst,“ segir hún.