Leikstjórinn Baltasar Kormákur og framleiðslufyrirtæki leikstjórans Ridley Scott, Scott Free, hafa tekið höndum saman og stefna á að gera sjónvarpsþáttaröð sem byggð er á tölvuleiknum vinsæla Eve Online, sem íslenska fyrirtækið CCP á og framleiðir. Þetta kemur fram á vef Variety.
Þar segir að viðræður standi yfir við fjárfesta um gerð svokallaðs pilot-þáttar. Baltasar keypti kvikmyndaréttinn að Eve Online fyrir um tveimur árum af CCP. Nýjasta kvikmynd hans, Everest, verður frumsýnd í kvöld, en hún er opnunarmynd kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum.
Ridley Scott er einn þekktasti kvikmyndaleikstjóri heims og hefur leikstýrt myndum á borð við Gladiator. Hann var einnig brautryðjandi í gerð vísindaskáldskapsmynda, en Scott leikstýrði bæði Alien seint á áttunda áratugnum og Blade Runner snemma á þeim níunda.