Ferðamenn frá Bandaríkjunum keyptu þjónustu með greiðslukortum fyrir um 19,2 milljarða í fyrra. Á síðustu tveimur árum hafa bandarískir ferðamenn keypt þjónustu hér á landi fyrir 34 milljarða króna. Bretar koma þar á eftir og keyptu þjónustu með kortum sínum fyrir 25 milljarða króna á árunum 2013 og 2014.
„Eftirtektarvert er að kortavelta norrænu nágrannaþjóðanna er rétt um helmingur þess sem Bandaríkjamenn greiða með kortum sínum eins og sjá má á myndinni hér að neðan,“ segir í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.
Hótel og gistihús er sá flokkur ferðaþjónustu sem aflar mestra tekna af erlendum ferðamönnum ef horft er til erlendrar greiðslukortaveltu hér á landi, samkvæmt tilkynningu Rannsóknarseturs verslunarinnar. Íslensk verslun er svo í öðru sæti yfir þá útgjaldaflokka sem njóta góðs af hratt vaxandi útgjöldum erlendra ferðamanna. Þar á eftir er sá flokkur ferðaþjónustu sem býður skipulegar ferðir eins og hvalaskoðun, skoðunarferðir, rútuferðir o. s. frv.
Kortavelta erlendra ferðamanna nær hámarki ár hvert í júlí, á háannatíma í ferðaþjónustunni. Í fyrra var veltan í júlí 18,3 milljarðar króna og hefur aldrei verið meiri.