Bandarísku fyrirtækin Starwood Energy Group og PowerBridge LLC, sem sérhæfa sig í fjárfestingum í innviðum raforkuflutningskerfa, hafa lýst yfir sameiginlegum áhuga á að koma að lagningu 1000 kílómetra sæstrengs milli Íslands og Bretlandseyja.
Fulltrúar fyrirtækjanna áttu fund með Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og fleiri ráðherrum í ríkisstjórninni í síðustu viku. Starwood Energy og PowerBridge óskuðu eftir fundunum til að ítreka áhuga sinn á verkefninu.
Fyrirtæki sem ber að taka alvarlega
Fyrirtækin eru leiðandi í lagningu sæstrengja í Bandaríkjunum en þau fjármögnuðu meðal annars tæplega 105 kílómetra 660 megavatta sæstreng milli Long Island í New York ríki og Sayreville í New Jersey. Þá komu fyrirtækin sömuleiðis sameiginlega að lagningu samskonar 19 kílómetra sæstrengs frá Ridgefield í New Jersey til Manhattan, en rúmir sex kílómetrar strengsins liggja á botni Hudson fljótsins.
Höfuðstöðvar Starwood Energy, sem er með um 40 milljarða Bandaríkjadala í stýringu, eru í New York borg, en fyrirtækið er sömuleiðis með starfsemi í Lúxemborg. Á vefsíðu félagsins gefur að líta þær fjölmörgu fjárfestingar sem félagið hefur ráðist í frá stofnun þess árið 2005.
PowerBridge er með höfuðstöðvar í Fairfield í Connecticut ríki í Bandaríkjunum. Á vefsíðu félagsins segir að það hafi komið á fjárfestingum í geiranum fyrir 1,5 milljarða Bandaríkjadala. Eins og áður segir sérhæfa fyrirtækin sig í fjárfestingum í innviðum raforkuflutningskerfa, það er þróun, fjármögnun, framkvæmd og rekstur slíkra kerfa.
Áhugi sem nær aftur til ársins 2012
Fyrirtækin lýstu yfir áhuga á að hitta ráðgjafarhóp Oddnýju G. Harðardóttur þáverandi iðnaðarráðherra, sem hún skipaði í júní árið 2012 til að kanna mögulegan sæstreng milli Íslands og Evrópu, og áttu tveir fulltrúar frá Starwood Energy og einn frá PowerBridge fund með fulltrúum ráðgjafarhópsins síðla árs 2012. Þetta kemur fram í skýrslu hópsins, þar sem hvatt er til að lagning sæstrengs frá Íslandi til Evrópu verði könnuð betur.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er töluverður þungi á bakvið áhuga bandarísku stórfyrirtækjanna á sæstreng milli Íslands og Bretlandseyja, eins og fundur þeirra með íslenskum stjórnvöldum í síðustu viku er til marks um, og bíða þau nú átekta hvað verða vill varðandi vilja íslenskra stjórnvalda til að ráðast í verkefnið. Annar fulltrúi Starwood, sem átti fund með íslenskum ráðamönnum fyrir skemmstu, heitir John Dizard, en hann er fjárfestingaráðgjafi sem skrifar reglulega pistla í Financial Times og hefur skrifað mikið um orkumál.
Nokkrir um hituna - ef verða vill
Eins og kunnugt fer Charles Hendry, fyrrverandi orkumálaráðherra Bretlands, fyrir hópi fjárfesta sem nú reynir að afla framkvæmdinni fjár. Í fjárfestahópnum, sem fer fram undir nafninu Atlantic Superconnection, er að finna meðal annars erlenda lífeyrissjóði. Þriðji aðilinn sem hefur sömuleiðis lýst yfir áhuga á lagningu sæstrengs er breska ríkisfyrirtækið National Grid. Þá hafa fleiri hópar viðrað áhuga sinn við íslensk stjórnvöld, þó enginn formlega að því er heimildir Kjarnans herma.
Charles Hendry, fyrrverandi orkumálaráðherra Bretlands, fer fyrir hópi áhugasamra fjárfesta um lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlandseyja. Mynd: Kjarninn
Samkvæmt tillögu áðurnefnds ráðgjafarhóps hefur iðnaðarráðuneytið þegar boðið út ýmsa þætti varðandi frekari hagkvæmnisathugun á lagningu sæstrengs til Bretlandseyja. Ekki liggur enn fyrir hvenær tíðinda verður að vænta úr þeim ranni.
Þá skrifaði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, grein í Morgunblaðið á dögunum þar sem hann taldi lagningu sæstrengs vænlegan kost fyrir þjóðarbúið. „Fyrir liggur að í boði gæti verið umtalsvert hærra orkuverð en nemur meðalverði Landsvirkjunar, þannig að um er að tefla mikla fjárhagslega hagsmuni fyrir fyrirtækið og þjóðina alla. Með tengingu við aðra markaði gæfist okkur kostur á að nýta þá umframorku sem óhjákvæmilega er til staðar í lokuðu raforkukerfi,“ skrifaði Hörður í Morgunblaðið.