Þrátt fyrir að nær sjö ár séu liðin frá fjármálahruninu þá eiga stóru viðskiptabankarnir þrír, Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn, enn tuttugu fyrirtæki í óskyldum rekstri. Samkvæmt lögum er bönkunum aðeins heimilt að stunda aðra starfsemi tímabundið en það er í höndum Fjármálaeftirlitsins að veita tímabundna tólf mánaða undanþáguheimild fyrir eignarhaldinu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag þar sem birtur er listi yfir þau félög sem bankarnir þrír eiga enn að meira en 10 prósent hluta eða öllu leyti. Flestar eignirnar eru á vefsíðum bankanna sagðar til sölu. Listann má sjá hér að neðan.
Arion banki
Landey ehf. (nýbyggingar/lóðir) 100%
BG12 slhf. (Bakkavör Group Ltd.) 62%
Farice (Tveir sæstrengir) 39,3%
Síminn hf. 38,3%
Klakki ehf. (Lýsing/Bakkavör) 31,8%
EAB1 ehf. (Refresco Gerber) 30%
Stoðir hf. (Refresco Gerber) 16,3%
SV IV slhf. (Skeljungur/PF Magn) 12,91%
Landsbankinn
Iceland Construction hf. (áður Ístak) 100%
Fasteignafélagið Borg ehf. 31,25%
Hesthólar ehf. (fasteignafélag) 26,4%
Eyrir Invest hf. (fjárfestingafélag) 23,3%
Sláturfélag Suðurlands svf. 20,76%
Stoðir hf. (fjárfestingafélag) 13,4%
Íslandsbanki
Manstron Properties Ltd. (fasteign í Bretlandi) 100%
Geysir General Partner ehf. 100%
Geysir Green Investment Fund slhf. 100%
Fergin (Frumherji) 80%
Frumtak GP ehf (rekstraraðili Frumtaks) 19%
Nýr Norðurturn (Norðurturn í Kópavogi) 11,85%
Í umfjöllun Morgunblaðsins er rætt við Daða Kristjánsson, framkvæmdastjóra H.F. Verðbréfa. Hann segir að það sé í raun óþolandi hversu lítið sé ýtt á að bankarnir losi sig við eignir sem eru í óskyldum rekstri. „Þeir hafa verið á undanþágu í mörg ár. Það er eins og menn séu að nýta sér þetta til hins ýtrasta,“ segir hann. Hann segir einnig það ekki vera hlutverk banka að liggja á stórum eignarhlutum í félögum að ástæðulausu. „Í mínum huga virðist sem hagsmunirnir snúist helst um að búa til þóknanatekjur hjá bönkunum. Þeir hafa fengið mörg góð tilboð í þessa hluti sem hafa ekki verið samþykkt. það lítur því út fyrir að þeir hafi verið að bíða eftir tækifærinu til að skrá sjálfir hlutina á markað.“ Þetta myndi ábyggilega ekki leyfast í nángrannalöndum, segir Daði.