Bankasýsla ríkisins segir að Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, hafi skort lagaheimild til að framselja eignarhluti ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka til slitabúa Kaupþings og Glitnis síðla árs 2009. Yfirtaka slitabúanna á umræddum eignum teldist til ráðstöfunar á eignum ríkisins samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar og því hefði þurft að afla heimildar í fjárlögum fyrir árið 2010 fyrir henni. Það var ekki gert enda voru samningar um framsalið gerðir annars vegar 3. september og hins vegar 15. október 2009. Fjárlög voru hins vegar ekki samþykkt á Alþingi fyrr en 22. desember sama ár, eða rúmum tveimur mánuðum eftir síðari samninginn. Þetta kemur fram í umsögn Bankasýslu ríkisins um frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Morgunblaðið hefur umsögnina undir höndum og greinir frá henni í dag.
Guðmundur Ámason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, er sagður hafa sett þrýsting á Bankasýsluna um skipun stjórnarformanns í fjármálafyrirtæki sumarið 2014. Hann sést hér með Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra.
Í umsögninni fullyrðir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, að Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, hafi reynt að hlutast til um skipan stjórnarformanns fjármálafyrirtækis sem ríkið á eignarhlut í með símtölum við sig í júní og júlí 2014. Hann hafi einnig reynt að fá stjórnarfundi í sama fyrirtæki frestað. Fjármálafyrirtækið sem um ræðir er ekki nefnt í umfjöllun Morgunblaðsins um umsögnina. Forstjórinn mótmæli umræddum afskiptum, taldi þau ekki í samræmi við lög og upplýsti stjórn stofnunarinnar um afskiptin.
Stofnunin heldur því einnig fram að með flutningi verkefna hennar inn í ráðuneytið muni hættan á hagsmunaárekstrum aukast og að ríkissjóður verði fyrir verulegu fjártjóni. Í umsögninni er bent á að málum sé hvergi hagað með þeim hætti að fjármálaráðuneyti fari með eignarhluti viðkomandi ríkis í fjármálastofnunum og eru Bretland, Holland, Grikkland og Spánn nefnd sem dæmi. Hvergi í samanburðarlöndum sé eignarhlutur ríkisins jafn hátt hlutfall af þjóðarframleiðslu og hérlendis, eða tæp 14 prósent.