Bankasýsla ríkisins auglýsir í dag eftir starfsfólki í verkefni tengd fyrirhugaðri sölumeðferð ríkisins á eignarhlut í Landsbankanum hf. Bankasýslan óskar eftir sérfræðingi í eignaumsýslu og lögfræðingi og hyggst ráða tvo til þrjá einstaklinga í tímabundin verkefni.
Bankasýslan gerir því greinilega ráð fyrir því að hún muni sjá um sölu á eignarhlutnum í Landsbankanum sem til stendur að selja, líkt og kom raunar fram í bréfi sem stofnunin sendi Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í september, þess efnis að stofnunin myndi skila af sér tillögu til ráðherrans um sölumeðferð á 30 prósenta eignarhlut ríkisins í Landsbankanum fyrir 31. janúar á næsta ári.
Bjarni gerir hins vegar ekki ráð fyrir því að Bankasýslan fá neitt fé til þess að reka sig á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem hann hefur lagt fram á Alþingi. Gengið er út frá því í frumvarpinu að Bankasýslan verði lögð niður um áramótin, eins og Bjarni lagði til í öðru frumvarpi sem hann lagði fram á síðasta þingi, um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það mál náði ekki fram að ganga, en samkvæmt því átti að leggja niður Bankasýsluna og færa eignarhluti ríkisins í bönkunum beint undir fjármálaráðherrann.
Auglýsingin birtist meðal annars í Viðskiptablaðinu í morgun.
Þar var gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra setti sérstaka eigendastefnu, skipaði þriggja manna ráðgjafanefnd til að veita honum ráðgjöf og undirbúa sölu og sölumeðferð eignarhluta ríkisins. Ríkiskaup áttu síðan að annast sölumeðferðina og skila mati á því hvaða tilboð séu best. Það verði hins vegar ráðherrans eins að taka ákvörðun um það hvort taka eigi tilboðum eða ekki.
Þetta frumvarp er ekki að finna í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir þingveturinn í ár. Þrátt fyrir það segir í fjárlagafrumvarpinu nú að tekið sé mið af því og gert sé ráð fyrir því að stofnunin verði lögð niður „og er því ekki gert ráð fyrir fjárheimild vegna stofnunarinnar í frumvarpinu.“
Ennfremur segir þar að „breytingin er til þess fallin að styrkja eigendahlutverk ráðuneytisins gagnvart fjármálafyrirtækjum og öðrum hlutafélögum sem og félögum utan ríkisins. Framtíðarfyrirkomulag á stjórnsýslu á þessu sviði verður áfram til skoðunar í haust og gert er ráð fyrir að niðurstaða þeirrar skoðunar muni liggja fyrir við lokaafgreiðslu frumvarpsins.“
Gert ráð fyrir 71 milljarði fyrir 30 prósenta hlut
Eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum, 98 prósent, er langstærsta eignin sem er í umsjón Bankasýslunnar. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár kemur fram að gert er ráð fyrir að sala á allt að 30 prósenta hlut fari fram á seinni hluta ársins, en það verður ein stærsta einkavæðing sögunnar.
Heimild til þess að selja hlut af hluta ríkisins í Landsbankanum hefur verið í lögum frá árinu 2011. Í frumvarpinu kemur fram að ríkið geri ráð fyrir því að um 71 milljarður króna fáist fyrir 30 prósenta hlut og að ágóðinn verði greiddur inn á skuldabréf sem voru gefin út til að fjármagna fallnar fjármálastofnanir árið 2008.
Þrátt fyrir vilja fjármálaráðherrans til að selja hlut í Landsbankanum er hins vegar ljóst að ekki er eining milli stjórnarflokkanna um hver framtíð Landsbankans eigi að vera. Á flokksþingi Framsóknarflokksins í apríl síðastliðnum var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Landsbankinn verði samfélagsbanki í eigu þjóðarinnar með það markmiði að þjóna samfélaginu í stað þess að hámarka hagnað. Til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði er nauðsynlegt að Landsbankinn hafi þann tilgang að bjóða góða þjónustu á bestu kjörum til að efla samkeppni í bankaþjónustu á landsvísu. Landsbankinn verði bakhjarl sparisjóðakerfisins.“ Þá hafa stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýnt áform um söluna.