Flest bendir til þess að innflutningsbann Rússa á matvörum frá Íslandi taki gildi strax og sé án undantekninga hvað varðar innflutning á makríl eða öðrum afurðum. Verið er að kanna hvort bannið gildi um þær vörur sem eru á leið yfir hafið í dag. Þetta virðist vera staðan, segir Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), í samtali við Kjarnann.
Sendiráð Íslands í Rússlandi vísaði fyrirspurnum til utanríkisráðuneytisins þegar Kjarninn hafði samband.
Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, tilkynnti í morgun að Ísland hafi verið bætt við á lista yfir lönd þaðan sem bannað er að flytja inn matvörur frá. Íslandi hefur þar með verið bætt á lista með Evrópusambandslöndum, Bandaríkjunum og Ástralíu en þessi lönd standa saman að viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi vegna átakanna í Úkraínu.
Enn liggur ekki nákvæmlega fyrir hversu víðtækt innflutningsbannið er gagnvart Íslandi. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, sagði í samtali við Kjarnann að ráðuneytinu hafi ekki borist neinar upplýsingar og væntir upplýsinga um málið síðar í dag.
Mikilvægur markaður
Rússland er stærsti uppsjávarfiskmarkaður íslenskra sjávarútflutningsfyrirtækja og áætlar SFS að við eðlilegar aðstæður hefði virði útflutnings á sjávarafurðum til Rússlands numið um 37 milljörðum króna á þessu ári. Mestu munar um útflutning til Rússlands á loðnu og makríl. Áætlað virði útflutnings á þessum tveimur fisktegundum er um 23,3 milljarðar króna árið 2015, miðað við eðlilegar aðstæður. Haukur Þór segir þetta sérstaklega bagalegt í ljósi nýlegrar athugunar Hafrannsóknarstofnunar sem sýndi að aldrei hefur meiri makríll verið í lögsögu Íslands.
Virði útflutnings sjávarútvegsafurða til Rússlands í fyrra nam um 31 milljarði króna, samkvæmt útreikningum SFS. Er það nokkru hærra en tölur Hagstofunnar sýna, en SFS gerir ráð fyrir að 40 prósent af útfluttum sjávarafurðum til Hollands fari áfram til Rússlands og 80% af útfluttum sjávarafurðum til Litháen.
Taka ekki afstöðu en telja viðskiptabann óvænlegt
„Við höfum sagt að við ætlumst ekki til að það verði gerðar breytingar á utanríkisstefnu Íslands. Pólitíkin sér um það. En okkur finnst eðlilegra að málin séu rædd með löngum aðdraganda,“ segir Haukur Þór. Það er mat SFS að viðskiptabönn séu ekki líkleg til að leysa deilur á borð við Úkraínudeiluna. Auk þess sé um að ræða innflutning á matvöru sem ekki geti skaðað fólk og sé ætluð almenningi.
Haukur Þór segir það taka langan tíma að finna og byggja upp nýja markaði fyrir uppsjávarfiskinn auk þess sem aðrir markaðir fyrir fiskinn í Afríku borgi lægra verð. Það sé ekki létt verk að finna vörunni nýjan farveg og taki langan tíma.