Barnafátækt á Íslandi jókst um rúm 20 prósentustig á árunum 2008 til 2012, ef miðað er við lágtekjumörk frá árinu 2008. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF sem ber heitið "Kreppubörnin - áhrif efnahagshrunsins á velferð barna í ríkum löndum," og var kynnt fjölmiðlum í dag. Í skýrslunni eru borin saman gögn frá 41 ríki innan OECD og Evrópusambandsins og þau skoðuð með tilliti til þess hvort fátækt barna hafi aukist eða minnkað frá árinu 2008.
Ísland situr í neðsta sæti af ríkjunum 41, næst á eftir Grikklandi, með mesta aukningu barnafátæktar á tímabilinu, en 20 prósenta aukningin samsvarar því að sautján þúsund fleiri börn hér á landi hafi fallið undir lágtekjumörkun frá árinu 2008. Með því að nota lágtekjumörk frá árinu 2008 sem viðmið, leitast skýrsluhöfundar við að varpa ljósi á áhrif efnahagsþrenginganna árið 2008 sérstaklega og þá skertu lífsafkomu sem samfélögin í heild sinni hafa mörg hver þurft að þola af þeirra völdum.
Aukin barnafátækt dreifist ekki jafnt í íslensku samfélagi, en mun líklegra er að börn einstæðra foreldra, börn fjölskyldna þar sem atvinnuþátttaka er lítil, og börn innflytjenda, búi á heimilum undir lágtekjumörgum. Barnafátækt á Íslandi eykst mest hjá börnum innflytjenda á tímabilinu eða um 38 prósent.
Samkvæmt skýrslu UNICEF hefur efnislegur skortur á meðal barna á Íslandi þrefaldast á tímabilinu, farið úr 0,9 prósentustigum upp í 3,1 prósentustig. Ef skoðaðir eru þeir sem bæði eru undir lágtekjumörkum og líða skort er um fjórföldun að ræða, 0,6 prósent barna tilheyrðu þessum hópi árið 2008, en árið 2012 hafði það hlutfall aukist upp í 2,6 prósent íslenskra barna.
Af löndunum 41 sem eru borin saman í skýrslunni jókst fátækt barna frá árinu 2008 í 23 ríkjum. Í hinum átján ríkjunum tókst að stemma stigu við aukningu barnafátæktar og í Ástralíu, Chile, Finnlandi, Noregi og Slóvakíu minnkað hlutfall barnafátæktar um nærri 30 prósentustig. Samkvæmt skýrslunni er styrkur velferðarkerfis ríkjanna lykilþáttur í að sporna gegn aukinni fátækt barna.