Tap Bauhaus á árinu 2013 nam 621.071.559 krónum. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Eignir félagsins námu þá tæpum 2,2 milljörðum króna og lækkuðu um tæpar 377 milljónir króna milli ára. Bókfært eigið fé í árslok 2013 var neikvætt um rúma 1,2 milljarða króna. Stjórn félagsins leggur til að tap ársins verði flutt til næsta árs.
Bauhaus tapaði tæpum 537 milljónum árið 2012, og því nemur tap félagsins árin 2012 og 2013 hátt í 1,2 milljörðum króna.
Upphaflega hugðist þýska verslunarkeðjan opna verslun á Íslandi í lok árs 2008, en sökum bankahrunsins var áformunum slegið á frest. Risastórt húsnæði verslunarkeðjunnar, við Lambhagaveg til móts við Korputorg, stóð tómt lengi vel, eða þar til verslun Bauhaus var formlega opnuð í lok maí árið 2011.