„Við í félaginu BDSM á Íslandi fögnum því að loksins standi til að afnema lög um bann við birtingu og dreifingu á klámi úr íslenskum lagabálki.“
Þetta kemur fram í umsögn félagsins, sem er hagsmunafélag BDSM-fólks hérlendis, um frumvarp tveggja þingmanna Pírata, Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur og Björns Leví Gunnarssonar, sem leggur til að refsiheimild vegna birtingar, innflutnings, sölu útbýtingar og annars konar dreifingar á klámi verði felld út.
Íslensk lög um klám hafa staðið óbreytt í 153 ár. Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu segja flutningsmenn þess að á sama tíma hafi viðhorf til kynlífs, umræða um það, kynhegðun og kynfrelsi breyst mikið.
Margir glímt við djúpa sjálfsskömm
Í umsögn BDSM-félagsins segir að meðlimir þess hafi mörg hver glímt við djúpa sjálfsskömm vegna eigin kennda og langana. „Skömm sem verður til við það að alast upp í samfélagi sem lokar augunum fyrir fjölbreytileika mannlegrar kynverundar og rígheldur í úrelt viðhorf um kynferðisleg samskipti, til dæmis forneskjulegar hugmyndir um kynferðislegan “hreinleika” kvenna, upphafningu hjónabands eins karls og einnar konu umfram öll önnur kynferðisleg sambandsform, og ýmsar kreddur um hvað sé og hvað sé ekki “eðlilegt” kynlíf.“
Núgildandi lög eru að mati BDSM-félagsins algjörlega gagnslaus og í raun skaðleg, frekar en hitt, þar sem þau ýti undir jaðarsetningu kynlífsverkafólks og takmarki möguleika þeirra til þess að afla sér lífsviðurværis á öruggan og löglegan hátt. „Það hlýtur auk þess að teljast ótækt að ætla sér að banna eitthvað mannlegt athæfi án þess að það sé skilmerkilega skilgreint og afmarkað en slík er einmitt raunin í núgildandi lögum, þar sem engin nothæf skilgreining er sett fram. Þar sem skilgreiningin á því hvað falli undir þessi lög er algjörlega huglæg, setur það kynfræðara í þá stöðu að vera hugsanlega gerð brotleg við þau með því einu að dreifa fræðsluefni. Það má einnig benda á að netsíur sem ætlað er að sía út klám, flokka almennt allt BDSM-fræðsluefni sem klám. Ef stuðst er við þá skilgreiningu eru BDSM-fræðendur gerð brotleg við þessi lög og þar með verið að útiloka virkilega mikilvæga fræðslu um samþykki og mörk.“
Flestar umsagnir neikvæðar
Alls hafa níu umsagnir borist um frumvarpið. Flestar eru þær neikvæðar og mæla gegn því að bann verði afnumið. Í umsögn Stígamóta segir til dæmis að klám sé í raun stór ógn við lýðheilsu og jafnrétti. Barnaheill telja að það sé ekki gagnlegt að afnema bann við klámi öðruvísi en að gera aðrar ráðstafanir til að takmarka aðgengi barna að klámi í lögum. Mannréttindaskrifstofa Íslands er einnig andvíg frumvarpinu og segir í umsögn sinni að klám sé í raun ekki annað en myndað vændi og það að vera myndaður í kynferðislegum athöfnum við klámframleiðslu sé kynferðisofbeldi á sama hátt og vændi. Kvenréttindafélag Íslands er á svipuðum slóðum, er ósammála því að öll refsiheimild er tengist klámi verði afnumin og hvetur stjórnvöld til að hafna frumvarpinu í heild sinni. Í umsögn þess segir að rannsóknir hafi sýnt fram á hvernig kynferðisleg áreitni og misnotkun byggð á klámi geti tengst vændi og mansali.
BDSM-félagið fjallar um athugasemdir sem þessar í sinni umsögn, og aðrar sem settar eru fram með þeim rökum að það verði að hafa einhver lög um klám til að sporna við ýmsum samfélagsmeinum sem tengjast því, til að mynda barnaklámi og mansali. „Það eru nú þegar lög í landinu sem banna fólki alfarið að beita börn ofbeldi eða gera þau útsett fyrir kynferðislegum athöfnum, sem og lög um frelsissviptingar og hverskyns nauðungarvinnu. Myndefni sem sýnir slík lögbrot er orðið eitthvað annað og alvarlegra en klám og þar með er hægt að fella framleiðslu og birtingu á slíku undir önnur, betur afmarkaðri lög.“