Verkefnið Sjálfvirkt gæðamat augnbotnamynda hlaut í dag nýsköpunarverðlaun forseta Íslands, sem nú voru veitt í tuttugasta sinn, en Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag.
Verðlaunaverkefnið var unnið af Benedikt Atla Jónssyni, nema í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, í samstarfi við Oxymap, Háskóla Íslands og Landspítalann.
Í fréttatilkynningu frá RANNÍS segir um verkefnið:
Augnbotnamyndir eru mikilvægar í augnlækningum til að greina og fylgjast með augnsjúkdómum. Árangur slíkrar greiningar ræðst þó af myndgæðum þar sem léleg myndgæði geta falið læknisfræðileg ummerki og valdið rangri greiningu. Hingað til hefur reynst erfitt að meta gæði og skerpu mynda, en í verkefninu var þróuð sjálfvirk aðferð til að meta gæði augnbotnamynda. Aðferðin hjálpar þeim sem tekur myndir að sjá strax hvort myndirnar eru nægilega góðar og voru 254 augnbotnamyndir, af jafnmörgum einstaklingum notaðar til að þjálfa gervigreindar-reiknirit til að meta skerpu og fókus mynda. Niðurstöður reikniritsins voru síðan bornar saman við einkunnir frá sérfræðingum. Sjálfvirka aðferðin, sem var þróuð í þessu verkefni, metur myndgæði með mun áreiðanlegri hætti en sérfræðingar. Því tryggir hún að myndatakan verður skilvirkari og áreiðanlegri. Þannig er t.d. ólíklegra að endurtaka þurfi myndatöku síðar vegna lélegra myndgæða. Í því felst sparnaður og greiningin verður öruggari vegna betri myndgæða. Að auki felur aðferðin í sér ýmsa möguleika til hagnýtingar sem hugbúnaðarvara fyrir augnbotnamyndatöku og fleira. Sjálfvirka aðferðin mun verða hluti af næstu hugbúnaðaruppfærslu fyrirtækisins Oxymap, sem hefur þróað tæki og hugbúnað til að greina augnbotnamyndir. Aðferðin er nú einnig komin í notkun á Landspítalanum og áhugi er á henni erlendis.