Benedikt Orri Einarsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri Meniga ehf. og tekur sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Meniga.
Benedikt er fæddur árið 1978 og er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði og B.Sc. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur frá árinu 2010 gegnt stöðu fjármálastjóra Carbon Recycling International. Áður starfaði Benedikt í Landsbankanum sem forstöðumaður endurskipulagningardeildar og í fyrirtækjaráðgjöf bankans. Benedikt hefur verið varamaður í stjórn Borgunar frá 2012.
Benedikt tekur við starfinu af Björgvini Inga Ólafssyni sem ráðinn hefur verið framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Íslandsbanka.
„Ég vil þakka Björgvini Inga fyrir framlag hans til félagsins og jafnframt bjóða Benedikt velkominn sem nýjan fjármálastjóra. Benedikt hefur mikla reynslu af alþjóðlegum fjármálamörkuðum og fjármálastjórn í hratt vaxandi tæknifyrirtækjum. Ég er sannfærður um að hann muni styrkja framkvæmdastjórnina. Verkefnið framundan er að aðlaga reksturinn að örum vexti og auknum alþjóðlegum verkefnum,“ segir Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, í tilkynningu.
„Það eru fá fyrirtæki á Íslandi sem bjóða upp á jafn áhugaverða vaxtarmöguleika og Meniga. Meniga hefur þróað vöru og viðskiptamódel sem eru eftirsótt víða um heim. Ég er spenntur að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins og sókn inn á erlenda markaði,” segir Benedikt Orri.
Meniga, sem stofnað var árið 2009, hefur vaxið hratt undanfarin ár og er leiðandi í Evrópu á markaði heimilisfjármála- og snjallbankalausna fyrir fjármálafyrirtæki. Lausnir Meniga eru nú í notkun hjá rúmlega 20 fjármálastofnunum í 17 löndum, að því er fram kemur í tilkynningu.