Líter af bensíni kostar nú 199,9 krónur á eldsneytisstöðvum N1, Atlantsolíu og Olís. Á stöðvum Skeljungs og Orkunnar er verðið enn yfir 200 krónum samkvæmt upplýsingum á heimasíðu þeirra.
Rúm fjögur ár eru síðan að verð á bensínlítra fór undir 200 króna markið á Íslandi. Það gerðist í nóvember 2010.
Lækkunin fylgir í kjölfar falls á heimsmarkaðsverði á olíu en verð á tunnu af Brent-olíu er nú nú 53 dalir. Í júní 2014 var verðið 115,9 dalir á tunnu og það hefur því lækkað um 54,3 prósent. Ástæðan er minnkandi eftirspurn, séstaklega vegna þess að Bandaríkin framleiða nú meira af orku og flytja minna inn en áður.
Lækkunin hefur ekki skilað sér að öllu leyti í vasa íslenskra neytenda. Þann 13. júní í fyrra var sjálfsafgreiðsluverð á 95 oktana bensíni á Íslandi 249,9 krónur á líter. Í dag er lægsta sjálfsafgreiðsluverð 199,9 krónur. Verðið hefur því lækkað um 20 prósent. Ástæðan er að hluta til sú að olíufélögin eru með uppsafnaðar birgðir af eldsneyti sem þau keyptu á hærra verði.
Krónan hefur einnig lækkað gagnvart bandaríkjadal, en heimsmarkaðsverð á olíu er reiknað í þeim gjaldmiðli. Alls hefur hún lækkað um tæp tólf prósent frá því í júní í fyrra. Að teknu tilliti til þeirrar veikingar hefur heimsmarkaðsverð á olíu samt lækkað um 48 prósent.