Nærri fimmtíu milljóna króna óuppgerð skólagjöld nemenda við Háskólann á Bifröst voru afskrifuð af stjórnendum skólans á síðasta ári. Afskriftir skuldanna komu til viðbótar fyrri afskriftum skulda upp á um 40 milljónir króna, sem að mestu voru ógreidd skólagjöld. Þetta kemur fram í DV í dag.
Ógreidd skólagjöld, og afskriftir þeirra, endurspegla þann veruleika að sumir nemendur sem hefja nám ljúka því aldrei og greiða aldrei skólagjöldin eins og þeim bar skylda til. Í umfjöllun DV er haft eftir Vilhjálmi Egilssyni, rektor á Bifröst, að krafan á greiðslu skólagjalda stofnist þegar fólk hefur nám, en námslán fáist ekki greidd fyrr en nemendur sýni fram á námsárangur. Þá geti verið að fólk hafi komist upp með að fá lán út á skólagjöldin án þess að borga skólanum.
Í nýjustu ársskýrslu Háskólans á Bifröst kemur fram að skólinn skuldaði 527 milljónir króna um síðustu áramót. Eigið fé var þá neikvætt um 56,4 milljónir króna og taprekstur var í fyrra upp á um 135 milljónir króna. Frá þessu er greint í DV.
Í síðustu viku greindi Stundin frá því að fasteignir háskólans hafi verið auglýstar á nauðungaruppboði vegna skulda gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur. Um er að ræða tugi fasteigna en þær eru í eigu fasteignafélags Bifrastar, Kiðá ehf. Í umfjöllun Stundarinnar sagði Vilhjálmur Egilsson að vandræði félagsins megi rekja allt aftur til 2007. Hann sagðist fastlega reikna með því að krafan sem liggur að baki nauðungasölubeiðninni verði gerð upp.