Bílaleiguiðnaðurinn á Íslandi veltir á bilinu 230 til 327 milljónum króna á dag yfir sumartímann, eða tæplega sjö milljörðum króna á mánuði. Búist er við því að iðnaðurinn velti um 30 milljörðum króna yfir háannatíma ferðaþjónustunnar í sumar. Alls eru skráðir bílaleigubílar í júní 2015 17.260 og þar af eru 16.358 í umferð. Þeim hefur fjölgað um 16,3 prósent milli ára. Þetta er niðurstaða útreikninga DV sem birtir eru í blaðinu í dag.
Kjarninn greindi frá því fyrir skemmstu að alls hafi verið seldir 6.698 fólks- og sendibílar á fyrstu fimm mánuðum ársins 2015, frá ársbyrjun til loka maí. Það er 41 prósent aukning frá sömu mánuðum 2014, þegar 4.763 bílar voru seldir. Um helmingur seldra bíla í ár eru bílaleigubílar, alls um 3.531 bifreiðar. Þótt hlutfallið sé hátt þá er það mun lægra en í fyrra, þegar 94 prósent allra seldra bíla á fyrstu fimm mánuðum ársins voru bílaleigubíla.