Einstök umboð selja nú mun fleiri bíla en á sama tíma í fyrra. Sala á nýjum bílum hefur aukist um tugi prósenta milli ára og útlit er fyrir að hátt í tólf þúsund nýir bílar seljist árið 2015. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.
Þar er rætt við Egil Jóhannsson, forstjóra Brimborgar. Hann segir að leiðrétting á verðtryggðum húsnæðislánum, sterkari króna og skattalækkanir skýri hina miklu söluaukningu. Til að undirstrika hversu mikil hún er bendir Egill á að sala Brimborgar á nýjum bílum til einstaklinga hafi aukist um 82,5 prósent á milli ára í janúar, eða nánast tvöfaldast. Sala á notuðum bílum hefur líka aukist mikið, eða um 77 prósent.
Í Morgunblaðinu er einnig rætt við Pál Þorsteinsson, upplýsingafulltrúa Toyota, sem segir að umboðið hafa selt 44 prósent fleiri nýja bíla í janúar 2015 en á sama tíma í fyrra. Þá spáir Bílabúð Benna 20-25 prósent aukningu í sölu á nýjum bílum í ár og að hátt í tólf þúsund nýir fólksbílar seljist á árinu.
Í frétt blaðsins stendur: "Kaupmáttur almennings til kaupa á nýjum bílum hefur aukist mikið, en flestir bílar eru keyptir inn í evrum.Tölur um meðallaun í janúar hafa ekki verið birtar. Út frá breytingum á launavísitölu má hins vegar áætla að heildarlaun fullvinnandi hafi verið um 561 þúsund í desember, eða 35 þúsund krónum hærri en árið áður. Til viðbótar kostaði evran 6 kr. minna í gær en sama dag í fyrra og má lauslega áætla að dæmigerður launamaður hafi nú að meðaltali 4.400 fleiri evrur í heildarlaun á ári. Þessi þróun ætti að öðru óbreyttu að skila auknum kaupmætti í bílum".