Kvikmyndin Birdman var sigursælust á Óskarsverðlaunahátíðinni sem lauk í nótt en myndin fékk fern verðlaun í stórum flokkum, þar á meðal sem besta myndin. Leikstjórinn Alejandro G. Iñárritu var valinn bestur í sínum flokki og þá var myndin einnig verðlaunuð fyrir fyrir kvikmyndatöku og frumsamið handrit.
The Grand Budapest Hotel fékk einnig fjögur verðlaun, meðal annars fyrir tónlist en í þeim flokki var Jóhann Jóhannsson tilnefndur fyrir tónlist sína í myndinni The Therory of Everything. Höfundur tónlistarinnar í The Grand Budapest Hotel er Alexandre Desplat. Kvikmyndin Whiplash hlaut síðan þrjú verðlaun, m.a. fyrir leik J.K. Simmons í aukahlutverki.
Eddie Redmayne hlaut verðlaunin fyrir bestan leik karla í aðalhlutverki fyrir leik sinn í The Therory of Everything. Julianne Moore hlaut verðlaun fyrir bestan leik kvenna í aðalhlutverki en hún lék aðalhlutverkið í kvikmyndinni Still Alice.
Jóhann hefur komið víða við á mögnuðum ferli sínum. Jóhann hlaut Golden Globe verðlaunin í byrjun janúar á þessu ári, fyrstur Íslendinga, og munu þau verðlaun, auk Óskarstilnefningarinnar, vafalítið opnar stórar dyr tækifæra fyrir hann í framtíðinni.
Hann var meðal annars gítar-og hljómborðsleikari hljómsveitarinnar HAM, hefur unnið með söngkonunni Emilíönu Torrini, var í hljómsveitinni Apparat Organ Quartet og hefur einnig útsett tónlist fyrir Pál Óskar Hjálmtýsson.
https://www.youtube.com/watch?v=uJfLoE6hanc